Tekjur þurfi að aukast um fimm milljarða

Kristín Ingólfsdóttir rektor við brautskráninguna í dag.
Kristín Ingólfsdóttir rektor við brautskráninguna í dag. mbl.is/Kristinn

Við útskrift 455 kandídata frá Háskóla Íslands í dag fagnaði Kristín Ingólfsdóttir rektor þeirri stefnumörkum sem fram kom í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að staðið yrði við samning um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands.

Þar sé kveðið á um að tekjur skólans verði í samræmi við meðaltal háskóla innan OECD og síðar í samræmi við háskóla á Norðurlöndum. Til þess að standa jafnfætis skólum í OECD-ríkjum þurfa tekjur skólans að vaxa um fimm milljarða króna. Kristín minnti á að skólinn hefði skuldbundið sig til að afla þriðjungs þessa viðbótarfjár sjálfur, meðal annars með sókn í alþjóðlega vísindasjóði, að því er segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands. 

Verðmætasköpun grundvölluð á háskólastarfi

Rektor lagði ríka áherslu á að framtíðarvelsæld á Íslandi byggðist á vaxandi verðmætasköpun og að hún væri meðal annars grundvölluð á háskólastarfi. „Markmið Háskóla Íslands um framlag til verðmætasköpunar eru skýr. Þau miða annars vegar að menntun fólks til starfa í grónum atvinnugreinum og þjálfun til að þróa þær áfram.

Markmið skólans er einnig að skapa nýja þekkingu og ný verðmæti byggð á rannsóknum og vísindum,“ sagði Kristín í ræðu sinni.

Hún nefndi dæmi um hvernig rannsóknir legðu grunn að nýrri verðmætasköpun, einkum með því að leiða til samstarfs vísindamenn og stúdenta úr ólíkum greinum. Hún tók dæmi um nýsköpunarverkefni sem tengjast bæði grónum og nýjum atvinnugreinum og íslensku máli.

Kristín sagði frá þremur sprotafyrirtækjum sem byggja á rannsóknum í augnlæknisfræði í samvinnu við greinar á borð tölvunarfræði, tölfræði, lyfjafræði og rafmagnsverkfræði. Rektor sagði að stærð Háskóla Íslands og fjölbreytni gerði vísindamönnum fært að sameina krafta sína með þessum hætti og að nú væri unnið að því að stórauka slíka samvinnu.

Hvatti til skattaívilnana

Hún hvatti jafnframt stjórnvöld til að gefa þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja styðja háskólastarf með beinum fjárframlögum möguleika á skattaívilnunum.

„Hugur og verk velgjörðarmanna skipta Háskóla Íslands verulegu máli. Víða erlendis tíðkast að stjórnvöld veiti skattaívilnanir þeim sem vilja styðja samfélagsleg verkefni á borð við háskólastarf. Það hefur verið margrætt af hálfu stjórnvalda hér en aldrei komist til framkvæmda,“ sagði hún.

Hún nefndi til sögunnar fjölmarga velgjörðarmenn sem stutt hafa rannsóknir og vísindastarf við skólann í gegnum tíðina. Meðal þeirra eru, að því er segir í tilkynningunni, Vestur-Íslendingar sem gáfu hlutabréf sín í Eimskipafélaginu gagngert til að styrkja Háskóla Íslands.

Meðal annarra sem lagt hafa fé til skólans svo um munar eru Bent Scheving Thorsteinsson, Ingibjörg R. Magnúsdóttir, Toshisho Watanabe, Selma og Kaj Langvad, Bragi Freymóðsson, Sverrir Sigurðsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir, Eggert V. Briem, Guðmundur P. Bjarnason, Erlendur Haraldsson, Ásrún Einarsdóttir, Godtfred Vestergaard og Áslaug Hafliðadóttir.

455 brautskráðir

Nemendur af öllum fimm fræðasviðum skólans, félagsvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði, hugvísindasviði, menntavísindasviði og verkfræði- og náttúruvísindasviði, fengu afhent prófskírteini á brautskráningarhátíðinni í dag. Samtals er um að ræða 455 kandídata með 456 próf, 263 sem hafa lokið grunnnámi og 192 sem hafa lokið framhaldsnámi. Athöfnin fór fram í Háskólabíói.

mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert