Játaði á sig tvær líkamsárásir

Úr dómsal.
Úr dómsal. Ernir Eyjólfsson

Karlmaður sem ákærður er fyrir tvær hættulegar líkamsárásir, framdar í janúar og júlí í fyrra, játaði sök fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Annar maður sem einnig er ákærður fyrir aðra árásina neitaði hins vegar sök. Mennirnir tveir og ung kona kröfðust þess svo að ákæru um fjársvik yrði vísað frá dómi.

Fólkinu er gefið að sök að hafa sett inn auglýsingu um kynlífsþjónustu í dagblað og hitt karlmann sem svaraði auglýsingunni. Í stað þess að veita þá þjónustu sem auglýst var stal konan fjörutíu þúsund krónum af vændiskaupandanum. Mennirnir réðust í kjölfarið á vændiskaupandann og eru í ákæru sagðir hafa ætlað að ræna hann.

Í ákæru segir einnig að annar maðurinn, Gísli Þór Gunnarsson, hafi skorið manninn þannig að hann hlaut tvo skurði, annars vegar frá vinstra kjálkabarði og skáhallt niður á við í átt að hálsæðum og hins vegar þvert á hálsinn í átt að barkanum.

Gísli Þór játaði að hafa ráðist á vændiskaupandann en tók sérstaklega fram að hinn maðurinn hefði ekki vitað um tilætlanir sínar. Hinn maðurinn neitaði sök.

Fólkinu eru einnig gefin að sök fjársvik með því að hafa stolið af vændiskaupandanum peningunum en ekki veitt þá þjónustu sem hann var að kaupa. Þau kröfðust þess öll að þessum ákærulið yrði vísað frá dómi.

Hefði þurft að standa við kynlífsþjónustuna

Málflutningur um frávísunarkröfuna fer fram í næstu viku og mun verða byggt á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. október 2013. Í því máli var 16 ára stúlka ákærð fyrir sama verknað, þ.e. að hafa boðið vændi en stolið peningunum. Var það mat héraðsdóms að vændiskaup mannsins nytu ekki réttarverndar. „Vændiskaupandinn gat ekki vænst verndar refsivörslunnar þótt um viðskiptin hafi farið eins og lýst er í ákærunni.“

Þá sagði að eini möguleiki stúlkunnar til að losna frá refsiábyrgð hefði verið sá að standa við kynlífsþjónustuna. „Að mati dómsins er sú niðurstaða ótæk.“

Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar en þar sem kæran uppfyllti ekki öll skilyrði laga um meðferð sakamála vísaði rétturinn málinu frá. Hefur Hæstiréttur því ekki kveðið upp úr um þetta tiltekna atriði.

Viðurkenndi vændiskaupin

Samkvæmt upplýsingum frá verjendum í málinu þá leituðu þeir svara við því hvort vændiskaupandinn yrði ekki ákærður fyrir sinn þátt í málinu. Því hafi verið svarað til að svo hafi ekki verið og hafi hans þáttur ekki verið tekinn til rannsóknar. Fullyrti einn verjenda í málinu að maðurinn hafi játað vændiskaup þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og þannig varpað sá sig sök. Engu að síður hafi ekkert verið gert með mál hans.

Þykir verjendunum þetta skjóta skökku við. Fram kom í fjölmiðlum þegar hitt málið kom upp að sá maður hafi verið ákærður fyrir vændiskaup. 

Bótakröfum í málinu hafnað

Gísli Þór er einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á karlmann í Breiðholti 2. júlí sama ár og veitt honum tíu sentímetra langt skurðsár á framhandlegg. Hann játaði sök hvað þann ákærulið varðar. Hann hafnaði hins vegar bótakröfum hvað varðar báða mennina.

Gísli Þór hlaut tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að Stokkseyrarmálinu svonefnda. Atvik í því máli gerðust 30. júní og 1. júlí 2013 og framdi hann því árásina í Breiðholti daginn eftir atvik í Stokkseyrarmálinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert