Hryllingur í fullri lengd

Erlingur Óttar Thoroddsen er í þann mund að hefja tökur …
Erlingur Óttar Thoroddsen er í þann mund að hefja tökur á fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, í New York í Bandaríkjunum. mbl.is/Styrmir Kári

„Fólk talar um að það sé eins og spretthlaup að gera stuttmynd, en mynd í fullri lengd sé eins og maraþon. Því betur undirbúinn sem þú ert því auðveldara er það, en það tekur alltaf á,“ segir Erlingur Óttar Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður, sem innan skamms hefur tökur á fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, í New York.

Myndin er byggð á stuttmynd Erlings, Child Eater, sem notið hefur mikillar velgengni á kvikmyndahátíðum vestra. Á einni þeirra, South by Southwest, í fyrra, voru fulltrúar vídjóvefsins Vimeo sem sýndu henni áhuga.

33 þúsund áhorfendur á 3 dögum

Nú í vikunni var Child Eater svo hampað sérstaklega á forsíðu Vimeo sem „val vikunnar“ Stuttmyndina, sem er 14 mínútna löng, má einnig sjá í heild sinni hér á mbl.is en rétt er að vara viðkvæma við henni því hún er sannarlega hrollvekjandi:

Erlingur segir það mikinn heiður að Vimeo hafi valið myndina til sýningar og það skili sér í auknum áhuga á verkum hans.

„Núna strax held ég að fleiri séu búnir að sjá myndina á Vimeo heldur en á öllum þeim kvikmyndahátíðum þar sem hún hefur verið sýnd,“ segir hann, en um 33 þúsund manns hafa horft á Child Eater á tæpum þremur sólarhringum á Vimeo. 

Matreiðslubók fyrir mannætur

Eftir nokkra daga hefjast tökur á Child Eater í fullri lengd. Hann hefur að miklu leyti fengið sama fólk til liðs við sig, þ.á.m. aðalleikkonuna. Hinsvegar þurfti að finna nýjan leikara í hlutverk litla drengsins í myndinni, enda er leikarinn sem lék hann upphaflega orðinn of stór og auk þess kominn með sinn eigin sjónvarpsþátt á barnastöðinni Nickelodeon.

Kvikmyndin er sjálfstæð framleiðsla og fjármögnuð með smáum framlögum úr ýmsum áttum, m.a. gegnum hópfjármögnunarsíðuna Kickstarter. Þótt framleiðslan sé tryggð segist Erlingur enn vera að safna nóg til að vera öruggur um að kvikmyndin geti klárast áfallalaust. Stefnt er að lágmarksupphæðinni 15.000$, eða um 1,7 milljónum króna.

Þeir sem vilja geta lagt sitt að mörkum á Kickstarter og munu fá ýmislegt fyrir sinn snúð eftir því hve framlagið er hátt. Þeir örlátustu sem styrkja um 350$ eða meira fá sem dæmi óvenjulega matreiðslubók að launum. „Það er smá mannætuþema í myndinni og við höfum safnað saman í matreiðslubók ýmsum uppskriftum í þeim anda, fyrir áhugasama,“ segir Erlingur og hlær.

Gerir sitt besta og kemur vel fram við fólk

Eflaust mun það hjálpa við dreifingu nýju myndarinnar að Erlingi hefur tekist að vekja talsverða eftirtekt vestra, í haust hlaut t.d. stuttmynd hans The Banishing verðlaun á Screamfest, stærstu hryllingsmyndahátíð Norður-Ameríku.

Aðspurður játar Erlingur þó að það geti vissulega verið barningur að koma sér inn í „bransann“ í Bandaríkjunum, en hann hefur haft ástríðu fyrir kvikmyndagerð og hryllingssögum síðan í barnæsku og lætur því ekki deigan síga.

„Ég lít í raun ekki þannig á þetta. Auðvitað er aldrei gefið að fólk vilji tala við mann eða sjá það sem maður er að gera, svo þetta er alltaf smá strögl, en ég lít samt ekki þannig á það. Ég geri bara mitt og geri það eins vel og ég get, kem almennilega fram við fólk og það hefur dugað mér hingað til.“

Child Eater
Child Eater
Í október tók Erlingur Óttar Thoroddsen við verðlaunum á Screamfest, …
Í október tók Erlingur Óttar Thoroddsen við verðlaunum á Screamfest, stærstu hryllingsmyndahátíð Bandaríkjanna, fyrir stuttmyndina The Banishing. Hér ásamt handritshöfundinum Brian McAuley.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert