Reyndi fjársvik með límbandsrúllu

Límbandsrúllan reyndist konunni dýr áður en yfir lauk.
Límbandsrúllan reyndist konunni dýr áður en yfir lauk.

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag konu til skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir tilraun til fjársvika og gripdeild. Þýfið var límbandsrúlla, að verðmæti 599 kr., sem konan greip úr hillu á bensínstöð og reyndi að blekkja afgreiðslumanninn til að skipta fyrir aðra vöru.

Brotið átti sér stað að kvöldi sunnudagsins 6. október 2013, í verslun Shell við Austurmörk í Hveragerði. Í ákæru kemur fram að konan hafi gripið límbandsrúlluna úr hillu og rakleiðis farið að afgreiðsluborði verslunarinnar þar sem hún reyndi að blekkja afgreiðslumanninn til að skipta límbandsrúllunni fyrir aðra vöru í versluninni.

Þegar henni var neitað um skiptin fór konan með umrædda límbandsrúllu ógreidda út úr versluninni. Ákæruvaldið, sem var sýslumaðurinn á Selfossi, krafðist þess að konunni yrði refsað fyrir athæfið.

Konan hefur einu sinni áður sætt refsingu, því árið 2009 gerði hún sátt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um greiðslu sektar vegna brots gegn 244. gr almennra hegningarlaga, um þjófnað á fjármunum eða orkuforða.

Í ljósi skýlausrar játningar konunnar þótti hæfileg refsing vera 30 daga skilorðsbundið fangelsi auk greiðslu alls sakarkostnaðar, 110.000 króna.

Sjá dóm Héraðsdóms Suðurlands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert