Gijsen lét eyðileggja bréf

Jóhannes Gijsen.
Jóhannes Gijsen. mbl.is/Sverrir

Jóhannes Gijsen, fyrrverandi biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, lét eyðileggja bréf sem forveri hans hafði beðið um að yrði varðveitt. Bréfið varðaði séra Georg sem var skólastjóri Landakotsskóla.

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi skilaði ítarlegri skýrslu í nóvember 2012. Niðurstaða nefndarinnar var að kaþólska kirkjan hafi reynt að þagga niður upplýsingar um andlegt ofbeldi í Landakotsskóla. Fjórir af 85 viðmælendum rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar sögðu frá kynferðisbrotum gegn sér af hálfu séra George og/eða Margrétar Muller kennara við skólann.

Í yfirlýsingu sem nefnd innan kaþólsku kirkjunnar í Roermond í Hollandi hefur sent frá sér segir að Gijsen hafi brotið gegn tveimur ungum drengjum á árunum 1958 til 1961.

Létu ekki fara fram rannsókn þrátt fyrir kvörtun

„Rannsóknarnefndin telur að biskupinn frá 1996-2007 [Gijsen] hafi í einu tilviki gert mistök með því að eyðileggja bréf sem forveri hans hafði falið kanslara að varðveita í biskupsembættinu,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Í skýrslunni kemur fram að maður hefði á sínum tíma komið til Jolsons, sem var biskup á undan Gijsen, og átt með honum fund. Séra Jakob Roland sagði fyrir nefndinni að maðurinn hefði „haft einhverja slæma reynslu með séra Georg í skólanum“. Hann hefði viljað koma þessum upplýsingum á framfæri til að tryggja að samskonar myndi ekki gerast aftur. Hann hefði afhent biskupi umslag sem hefði verið geymt í skjalasafni biskupsembættisins. Séra Jakob sagðist hafa afhent Gijsen umslagið eftir að hann tók við biskupsembættinu. Þegar Gijsen var búinn að kynna sér efni þess hefði hann eyðilagt bréfið.

Nefndin segir einnig Gijsen í þremur tilvikum hafa vanrækt skyldu sína að skrá ásökun og upplýsingar um ofbeldi. Í einu þessara tilvika hafi Gijsen að auki vanrækt skyldu sína að tryggja að fram færi sjálfstæð rannsókn á ásökunum og að gripið yrði til réttra viðbragða og í öðru tilviki þá skyldu að meta hvort þörf væri á sérstakri rannsókn og að taka ákvörðun um önnur viðbrögð.

Gijsen var í september 2010 kærður fyrir kynferðisbrot í skóla í Rolduc á árunum 1959-1961.

Jóhannes Gijsen lést 24. júní á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert