Allar leiðir liggja til Ísafjarðar

Páll Óskar Hjálmtýsson tryllti gesti Aldrei fór ég suður páskana …
Páll Óskar Hjálmtýsson tryllti gesti Aldrei fór ég suður páskana 2012, en hann verður með ball í tengslum við skíðavikuna í ár. Ljósmynd/aldrei.is

Búist er við fjölmenni á Ísafirði um páskahelgina þegar árleg skíðavika nær hápunkti samhliða 10 ára afmæli rokkhátíðar alþýðunnar Aldrei fór ég suður. Íbúafjöldi bæjarins gæti tvöfaldast og rúmlega það. Enn er þó hægt að finna gistirými enda bjóða margir heimamenn gistingu, jafnvel á sófanum hjá sér.

Að sögn kunnugra hefur ekki verið meiri snjór í brekkunum í mörg ár og hátt í 100 tónlistarmenn koma fram á Aldrei fór ég suður, auk þess sem Páll Óskar verður með ball þessu utan. Engan skyldi því undra þótt fólk flykkist vestur til að skíða á daginn og rokka á kvöldin.

Halda áfram á meðan það er gaman

Birna Jónsdóttir er rokkstjóri í ár. Hún segir erfitt að segja til um það fyrirfram hvað von er á mörgum um helgina, enda eru ekki seldir miðar á Aldrei fór ég suður. Síðustu ár hefur þó verið áætlað að um 3000 manns hafi lagt leið sína á Ísafjörð og til nágrannasveitarfélaga yfir páskana.

„Það eru grófir útreikningar en það er erfitt að telja. Sumir koma fljúgandi en margir keyrandi. Það er mikið bókað af gistingu, en margir gista hjá ættingjum og vinum. Við stöndum sjálf í því núna að finna hýsingu fyrir alla þá listamenn sem koma fram.“

Að sögn Birnu koma um 80-90 listamenn til Ísafjarðar vegna rokkhátíðarinnar og sem fyrr eru allir sem að hátíðinni koma í sjálfboðavinnu. Ekkert sérstakt verður gert í tilefni 10 ára afmælisins, en Birna segir gleðilegt að hátíðin hafi lifað svo lengi.

„Við höldum okkar striki og höfum þetta látlaust. Við erum ekkert að skjóta upp neinum flugeldum, þetta er bara hrátt og gott. Það er heldur engin framtíðarstefna hjá okkur, við höldum bara áfram á meðan þetta er gaman.“

Aðspurð segist Birna ekki telja að það sé nein ein ákveðin týpa sem kemur á Aldrei fór ég suður. „Ég held að þetta sé fólk af öllu tagi. Afi minn kemur og stendur þarna við hliðina á fólki frá 101 Reykjavík, ásamt litlum strákum sem hanga með stóru frænkum sínum, og svo framvegis. “

Ekki meiri snjór í mörg ár

Gera má ráð fyrir að margt af þessu fólki nýti tímann yfir daginn til útivistar á skíðum. Heimir Hansson hjá Markaðsstofu Vestfjarða segir að þegar mest er ríflega tvöfaldist íbúatalan á Ísafirði yfir páskahelgina.

Aðsóknin ár frá ári veltur þó nokkuð á veðri og færi. Heimir segir að útlitið sé gott í ár. „Ég var nú bara sjálfur á skíðum síðast í gær og það hefur ekki verið svona mikill snjór á skíðasvæðunum í mörg, mörg ár. Aðstæðurnar eru ofsalega góðar akkúrat núna.“

Ýmsir viðburðir eru líka í boði í tengslum við skíðavikuna, þar á meðal ball á föstudagskvöldið með Páli Óskari, og þeim Retro Stefson bræðrum Unnsteini Manuel og Loga Pedro.

Gisting á sófanum fyrir nokkra þúsundkalla

Aðspurður segist Heimir hafa kannað stöðuna hjá gistihúsum og enn sé hægt að fá herbergi á einhverjum stöðum. „Þorpin hér í kring hafa líka verið vinsæl til að gista í, þannig að þetta teygir sig yfir talsvert svæði.“

Þess utan eru sumir sem leigja sumarbústaði eða herbergi í heimahúsum og þá eru líka dæmi um að Ísfirðingar hafi íbúðaskipti við Reykvíkinga yfir páskahelgina. Á Facebook er sérstakur vettvangur fyrir fólk sem leitar að eða býður fram gistingu á Ísafirði. Þar má m.a. sjá tilboð um að fá að sofa í stofusófa heimamanns fyrir 4000 krónur á nóttina.

Flestir gestanna á Ísafirði þessa helgi eru Íslendingar, að sögn Heimis, en rómur rokkhátíðarinnar berst þó víða.

„Lengst af hefur yfirgnæfandi meirihluti verið Íslendingar, en smátt og smátt, ár frá ári, hefur maður orðið var við fleiri erlenda ferðamenn og mér fannst heilmikið stökk verða í fyrra. Þá voru mjög margir útlendingar sem komu á Aldrei fór ég suður.“

Ísafjörðurinn fagri umturnast árlega í rokkhöfuðborg landsins um páska.
Ísafjörðurinn fagri umturnast árlega í rokkhöfuðborg landsins um páska. Ljósmynd/aldrei.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert