Makrílkvóti skýrist á næstu dögum

„Það ekki komið nein niðurstaða hvaða leið verður farin en það er stutt í það,“ segir Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í samtali við mbl.is spurður út í makrílkvóta þessa árs - hvort gefinn verði út einhliða kvóti af hálfu Íslands eða gengið inn í samning sem Evrópusambandið, Norðmenn og Færeyingar gerðu fyrr á árinu.

Íslensk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt samkomulagið, bæði vegna þess að það var gert án vitneskju Íslendinga og ekki síður vegna þess að það gerir ráð fyrir veiðum umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) fyrir þetta ár. Samkomulagið gerir ráð fyrir að fleiri ríki geti gerst aðilar að því og gæti Ísland fengið 11,9% makrílkvótans ef gengið yrði inn í það. Ef ekki munu íslensk stjórnvöld gefa út einhliða kvóta í íslensku efnahagslögsögunni eins og verið hefur undanfarin ár.

„Það liggur í hlutarins eðli að veiðar eru að fara að hefjast innan skamms og þá verður eitthvað að liggja fyrir, en hvað nákvæmlega, skýrist á allra næstu dögum,“ segir Þórir. Ekki hefur náðst í Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert