Ný skíðabraut á Akureyri

Búast má við fjölmenni í Hlíðarfjalli um helgina.
Búast má við fjölmenni í Hlíðarfjalli um helgina. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Unnið var að því í dag að troða nýja skíðabraut í Hlíðarfjalli á Akureyri. Brautin er rúmlega 2 km löng og því um helmingi lengri en þær sem fyrir eru.

Nýja brautin liggur frá skíðahótelinu Skíðastöðum í Hlíðarfjalli niður að orlofsbyggðinni að Hálöndum. Fram kemur á vef Akureyriarbæjar að um páskana sé ætlunin að litlar rútur verði á bílastæðinu við Hálönd sem keyri fólk aftur upp í Hlíðarfjall. Skíðapassar og vetrarkort munu gilda í rúturnar, en einnig verða seldar stakar ferðir.

Haft er eftir Guðmundi Karli Jónssyni, forstöðumanni Hlíðarfjalls, að þetta sé fyrst og fremst spennandi tilraunaverkefni. 

Okkur langaði að prófa þetta en hugmyndin kviknaði þegar við skoðuðum veðurspána fyrir helgina. Það er spáð veðurblíðu en suðvestan áttum sem geta orðið ansi hvassar þegar vindurinn stendur niður af fjallinu eða kemur í strengnum ofan af Glerárdal. Þá hefur stundum þurft að loka Fjarkanum. Auðvitað vonum við að svo fari ekki en þá höfum við a.m.k. þessa nýju og stórglæsilegu braut til vonar og vara en hún er rúmir tveir kílómetrar og útsýnið stórkostlegt. Við köllum hana „Heimþrána“ því þarna er fólk að renna sér heim á leið þótt því bjóðist svo að taka rútuna aftur upp eftir til að renna sér meira,“ segir Guðmundur Karl.

Sjá nánar á vef Akureyrarbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert