Vara við hættu við háspennumannvirki

Skíðadrekar í Ölpunum.
Skíðadrekar í Ölpunum.

Vegna vaxandi notkunar svokallaðra skíðadreka hérlendis, til að draga skíða- og brettafólk yfir snævi þakta grund, vill Landsnet vara við hættum sem geta skapast ef íþrótt þessi er stunduð of nálægt háspennumannvirkjum, sér í lagi háspennulínum.

Í frétt á vef Landsnets segir að allir sem stunda svif- og skíðadrekasport þurfi að gera sér grein fyrir þeim hættum sem fylgja því að fara of nálægt háspennumannvirkjum. „Hvers konar snerting eða tenging við háspennulínu getur verið lífshættuleg og jafnvel orðið mönnum að aldurtila.

Mikil hætta skapast til dæmis ef tengilína svif- eða skíðadreka flækist í háspennulínum. Kann þá rafstraumur að hlaupa um tengilínuna, gegnum þann sem við hana er festur og miklar líkur eru á að slíkt valdi dauða viðkomandi,“ segir í fréttinni.

Hér sé því um mikilvægt öryggismál að ræða fyrir alla sem stunda þessa íþrótt og brýnt að þeir velji sér helst leiðir þar sem ekki þarf að þvera háspennulínur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert