Mikilvægt að efla fjármálalæsið

Fjármálahreysti
Fjármálahreysti mbl.is

Fjármálahreysti er keppni fyrir efstu bekki grunnskólanna í fjármálalæsi. Leysa ungmennin ýmis verkefni tengd peningum og fjármálum og er til mikils að vinna. Í rannsókn sem gerð var eftir hrun kom í ljós að fjármálalæsi Íslendinga var ekki nógu gott og þarf að bæta úr því.

Í rúman áratug hefur Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla, unnið með Landsbankanum að fjármálafræðsluefni fyrir efstu bekki grunnskólanna. Úr því samstarfi urðu Raunveruleikarnir til sem var stór keppni þar sem nemendur hermdu eftir raunverulegu lífi eins og hægt er í leik. „Fjármálahreysti er arftaki Raunveruleikanna og er einfaldur spurningaleikur. Raunveruleikarnir voru stærri og flóknari. Þeir kröfðust þess t.d. að allir byrjuðu á sama tíma á meðan Fjármálahreystin stendur yfir í heilan mánuð og nemendur ákveða hvort og hvenær þeir taka þátt. Raunveruleikarnir voru mjög skemmtilegir og gengu vel en við vildum létta aðeins á umfanginu í kringum þetta og hönnuðum því þennan einfalda leik sem er í gangi í mánuð,“ segir Ómar.

Leysa 64 þrautir

Þrátt fyrir að vera hannaður fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna er Fjármálahreysti opinn öllum þeim sem vilja vera með og kanna fjármálalæsi sitt. „Við ákváðum að móta þetta eftir ákveðinni kennslufræði og kennslufræðilegum hugmyndum,“ bætir Ómar við. Í Fjármálahreysti leysa þátttakendur 64 verkefni af mjög fjölbreyttu tagi. Verkefnin eru á fjórum ólíkum efnissviðum, snerta fjóra þekkingarflokka og eru sett fram á jafnmörgum þyngdarstigum. Efnissviðin fjögur eru: Ég, Heimilið, Nám og atvinna og Samfélagið og tekur þessi flokkun mið af markmiðum OECD um fjármálafræðslu. „Við notum ramma OECD í fjármálafræðslu fyrir 15 ára gömul ungmenni sem er sami rammi og notaður er í PISA-rannsóknunum. Við Íslendingar höfum reyndar því miður ekki tekið þátt í fjármálafræðsluhluta PISA hingað til en við notum samt sem áður þann ramma.“ Að sögn Ómars byggist sá rammi á þekkingu, færi og viðhorfum. „Á þeim sviðum fjármálafræðslu sem OECD miðar við að 15 ára unglingar eigi að þekkja koma upp mál eins og fjármál einstaklinga, fjármál heimilis og samfélags ásamt fjármálum náms- og atvinnuumhverfis.“

Viðhorf mikilvæg

Fjármálahreysti er fjölbreyttur leikur. Þátttakendur þurfa að þekkja ýmis hugtök, reikna og skilja myndrit. „Einnig þurfa þátttakendur að hafa viðhorf og mynda sér skoðanir um hvað sé skynsamlegast að gera í ýmsum aðstæðum fjármálalega séð,“ segir Ómar sem segir einnig að það sé mjög skemmtilegt að blanda viðhorfun„um inn þar sem það er ekki mikið gert af því í almennu grunnskólanámi. Leikurinn er hannaður fyrir snjalltæki og segir Ómar að það krefjist ákveðinna eiginleika. „Það að hafa leikinn í snjalltækjaformi krefst ekki aðeins þess að hann sé hannaður í litlu umbroti heldur þarf hann einnig að vera mátulega hraður. Það þarf að gera ráð fyrir því að þátttakendur geti leyst verkefnin áður en skjárinn sofnar.“

Fjármálalæsi tengt almennu læsi

Segir Ómar að viðbrögðin hafi verið góð og þegar hafi nokkur hundruð manns tekið þátt í leiknum. „Ég hef ekki séð nemanda ná fullu húsi stiga en nokkrir fullorðnir hafa gert það.“

Fjármálahreysti er haldin í samstarfi við íþróttakeppnina Skólahreysti en Landsbankinn stendur einnig á bak við hana. Fjármálahreysti lýkur 8. maí næstkomandi og fer verðlaunaafhendingin fram rúmri viku síðar, 16. maí. Í fyrstu verðlaun er iPhone 5s en annað og þriðja sæti hljóta iPad mini. Einnig fá þeir skólar þar sem flestir taka þátt viðurkenningu.

Aðspurður um viðbrögðin segir Ómar að það sé ljóst að stór hluti ungmenna vilji æfa sig í og fá staðfestingu á fjármálalæsi sínu. „Í framhaldinu væri mjög áhugavert ef skólar og kennarar myndu nota þennan eða bara einhvern grunn í fjármálafræðslu til viðmiðunar til þess að stuðla að frekari fjármálafræðslu í grunnskólunum. Ég veit að það var reynt að koma einhverri fjármálakennslu að í síðustu aðalnámskrá en það gekk víst ekki nógu vel.“ Ómar segir jafnframt að það sé mikil þörf á verkefnum eins og Fjármálahreysti. „Fljótlega eftir hrun voru gerðar rannsóknir sem bentu til þess að fjármálalæsi, ekki bara ungs fólks heldur Íslendinga yfir höfuð, væri ekki nógu gott. Það þarf samt að muna að fjármálalæsi er nátengt almennu læsi. Þetta snýst allt um að taka á móti upplýsingum, meta þær og taka síðan ákvarðanir í kjölfarið,“ segir Ómar að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert