Með 10-15 skemmdar tennur

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Það eru einfaldlega alltof mörg ung börn að koma til mín með mikið skemmdar tennur,“segir Sigurður Rúnar Sæmundsson, barnatannlæknir og dósent í barnatannlækningum við HÍ. „Þau börn sem aðrir tannlæknar vísa frá sér eru oftast send til mín.“

Nýlega skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um átaksverkefni um endurgjaldslausar tannlækningar fyrir börn tekjulágra forráðamanna. Í skýrslunni kemur fram að fyrirfram hafi verið talin mjög brýn þörf fyrir þessa þjónustu. Áttaksverkefnið hófst árið 2011. Þátttaka hafi hins vegar verið mun minni en gert var ráð fyrir þrátt fyrir að verkefnið hafi verið vel kynnt. Til að mynda uppfylltu 8800 börn skilyrði til gjaldfrjálsra tannlækninga en aðeins 1335 sóttu um. Þegar upp var staðið náði þjónustan aðeins til 740 barna.

Áberandi kynslóðabil

Samkvæmt Sigurði er mikill munur á kynslóðum þegar það kemur að tannheilsu.

„Sú kynslóð sem voru krakkar á tímabilinu 1960-70 voru með skelfilegustu tennur sem fundist höfðu á byggðu bóli. Það fólk ákvað síðan að hugsa vel um tennur sinna barna. Það fólk er orðið ömmur og afar í dag og það virðist hafa tapast þekkingin á því hvernig tennur skemmast.“

Samkvæmt Sigurði Rúnari er þetta fyrirbæri einnig þekkt á Norðurlöndunum. „Þetta er stundum kölluð x-kynslóð í tannlækningum sem elst upp við það að hafa heilar tennur og að það komi bara af sjálfu sér.“

Samkvæmt rannsóknum er tannheilsa barna og ungmenna hér á landi talsvert verri en í hinum Norðurlöndunum. „Samkvæmt gögnum frá árinu 2005 þar sem gerður var beinn samanburður kom í ljós að tannheilsa hér er mun lakari en í til dæmis Svíðþjóð og Danmörku. Reyndar eru svíarnir alltaf bestir þegar það kemur að þessum málum. Í kringum 1985 og 1990 gerðist eitthvað í þessum málum og tannskemmdir hrundu niður í ásættanlegar tölur. Árið 2000 hélt fólk síðan að þetta væri komið en nú virðist það hafa sigið aftur. Tölurnar eru vissulega ekki eins slæmar og þær voru en þær hafa þó sigið í öfuga átt.“

Færri koma til tannlæknis

Aðspurður segir Sigurður Rúnar að erfitt sé að átta sig á ástæðum þess að fólk notast ekki við gjaldlausar tannlækningar.

„Í gegnum tíðina hafa margir sagt að það sem valdi slæmri tannheilsu sé að tannlækingar séu dýrar og fáist ekki endurgreidar. Þessvegna er mjög skrýtið að það séu ekki allir að flykkjast með börnin sín til tannlæknis nú þegar það kostar ekki neitt. Það hefur reyndar orðið fækkun hjá þeim sem fara til tannlæknis síðast þegar ég frétti.“

Aðspurður segir Sigurður að þetta gæti tengst mannlegu eðli. „ Það er vissulega eðlilegt að þeir sem eru samviskusamir geri allt sem þeir vilja og þurfa til að hafa tennurnar góðar en hinir geri það einfaldlega ekki. Þá skiptir kannski ekki stóru máli hvort þetta kosti 10 þúsund krónur eða núll krónur.“

10-15 skemmdir algeng sjón

"Einu sinni í viku er ég með svokallaðar svæfingar þar sem mjög lítil börn koma til mín með tannskemmdir sem ég geri við í svæfingu. Þá koma reglulega börn sem eru með 10-15 skemmdar tennur, 2 til 4 ára gömul börn. Þetta er ansi magnað, fólk heldur að þetta sé ekki til. Auðvitað er þetta heldur ekki eitthvað sem foreldrar státa sig af, það viðurkennir enginn í saumaklúbbi eða kokteilboði að barnið sitt hafi verið með 10-15 skemmdar tennur."

Samkvæmt Sigurði Rúnari snýst þetta yfirleitt um samspil matarræðis og þrifa. "Þetta tvennt er mjög mikilvægt. Tannskemmdir ungra krakka tengjast oft næturdrykkju. Börnin fara með pelan í rúmið og drekka yfir nóttina sem getur valdið tannskemmdum. Sama með brjóstagjöf, sum börn drekka smá og smá yfir alla nóttina og það getur verið skelfilegt fyrir tannheilsu. "

Segir Sigurður Rúnar jafnframt að slæm tannheilsa barna einskorðist ekki við einhvern einn ákveðinn þjóðfélagshóp. "Margir halda því fram að þetta séu aðeins börn innflytjenda sem koma með skemmdar tennur. Vissulega er þannig að það er stærri hópur meðal innflytjenda sem missa tökin á þessum hlutum. Ég held þó að þetta sé frekar tekju- og menntunartengt heldur en þjóðernis."

Sigurður Rúnar Sæmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert