Samfélagstenging og tyggjóklessur

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Eins og svo oft áður fóru þingmenn um víðan völl við upphaf þingfundar í dag þegar rætt var um störf þingsins. Allt frá stríðsminjum í Öskjuhlíð, opnum verslunum á baráttudegi verkalýðsins og sumarfrí þingmanna til góðra verka ríkisstjórnarinnar og tyggjóklessa á gangstéttum.

Þannig stiklað sé á stóru má nefna að Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kom upp í ræðustól og benti á að nú fari að styttast í þinglok, gríðarlegan fjölda mála eigi eftir að afgreiða og ekkert samkomulag sé í sjónmáli milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þá séu verkföll og vinnustöðvanir boðaðar sem aldrei fyrr og fyrirtæki boði að þau séu á leið úr landi. „Það þarf að samfélagstengja þessa ríkisstjórn,“ sagði Bjarkey.

Þessu svaraði Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, á þann veg að tíminn sé vissulega naumur en hann sé einnig nægur. Hann sagði einnig að þegar „skuldaleiðrétting“ ríkisstjórnarinnar sé gengin í gegn blasi við að afnema þurfi verðtryggingu af neytendalánum, nýjum sem gömlum.

Annar þingmaður, framsóknarmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson, kom inn á samfélagslega tengingu og sagði marga í þörf fyrir slíka tengingu, þar á meðal formaður BSRB. Vitnaði hann til ræðu formannsins í gær, í tilefni af baráttudegi verkalýðsins, og spurði á hvaða vegferð formaðurinn sé.

Ekkert aðhald í sumarfríi þingmanna

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, talaði einnig um 1. maí en út frá öðrum forsendum. Hún sagðist hafa keypt sér kaffi í gær og undrast hversu margar verslanir voru opnar. „Það var alls staðar opið.“ Hún sagði afgreiðslumanninn á kaffihúsinu hafa beðið um að þingheimur yrði látinn vita af því hversu margir séu að vinna á þessum degi.

Jafnframt sagðist Birgitta vera til í að halda sumarþing því brátt fari þingmenn í „alltof langt frí.“ Hún sagði þingheim ekki geta veitt ríkisstjórninni neitt aðhald í um fjóra mánuði og það finnist henni óþægilegt. „Við höfum engin verkfæri til að veita framkvæmdavaldinu neitt aðhald. Það var fyrrverandi forsætisráðherra nokkur sem hafði það á stefnu inni að hafa þingið sem lengst frá í fríi svo að ríkisstjórn hans gæti gert það sem hún vildi.“

Jákvæðir þingmenn Sjálfstæðisflokks

Þá var komið að þingmönnum Sjálfstæðisflokks. Fyrstur steig í ræðustól Ásmundur Friðriksson og hóf að fara yfir þau verk sem ríkisstjórnin hafi framkvæmt frá hausti. Nefndi hann hallalaus fjárlög, skattalækkanir, lækkað tryggingagjald og að auðlegðarskattur hefði ekki verið endurnýjaður. Þá hafi veiðigjöld á sjávarútveginn verið lækkuð. Einnig hafi skerðing bóta verið tekin af og frítekjumark hækkað. „Það er margt jákvætt að gerast.“

Vilhjálmur Árnason tók undir með Ásmundi og hélt áfram upptalningunni. „Það er margt jákvætt að gerast og það er nauðsynlegt að það heyrist. Það þarf að tala kjark í þessa þjóð.“ Hann sagði meðal annars að störfum hafa verið fjölgað verulega.

Þá sagði Vilhjálmur að góður bragur hafi verið á þeim málum sem séu til meðferðar í nefndum þingsins. Hins vegar hafi þau ekki fengið hraðan og góðan framgang, aðallega vegna þess að mál séu tafin í fyrstu umræðu.

Næst hélt ræðu Unnur Brá Konráðsdóttir og var jákvæð eins og aðrir ræðumenn Sjálfstæðisflokksins. „Sól fer hækkandi á lofti og við förum öll að verða bjartsýn.“ Hún sagði rétt að benda á að síðan núverandi ríkisstjórn tók við sé búið að ná betri tökum á ríkisrekstrinum, þannig séu fjárlög hallalaus og verði vonandi áfram út kjörtímabilið. 

Hún sagði einnig að kaupmáttur launa hefði vaxið á síðustu tólf mánuðum og það sé eitthvað sem veki athygli og beri að fagna. Þá hafi skattar á 90% launþega verið lækkaðir. Það sé gott skref og fjarri þeirri stefnu sem síðasta ríkisstjórn viðhafði. „En við þurfum að stíga stærri skref á næstu misserum.“

Síðasti þingmaður Sjálfstæðisflokks sem tók til máls var Valgerður Gunnarsdóttir. Hún fagnaði úthlutun úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og að framkvæmdir muni geta hafist við kísilmálmverksmiðju í Helguvík næstkomandi haust.

Að lokum sagðist Valgerður vilja koma inn á ákveðið mál sem hún hefur áhyggjur af, nefnilega tyggjóklessum á gagnstéttum og götum. Hún sagði þetta sóðaskap og að fuglar plokki gjarnan í tyggjóið með þeim afleiðingum að það festist í innyflum þeirra og valdi hægum og kvalafullum dauðdaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert