Regluleg laun 436 þúsund krónur

Heildarlaun karla voru 591 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun …
Heildarlaun karla voru 591 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun kvenna 457 þúsund krónur á síðasta ári. Af vef Evrópuvaktarinnar

Regluleg mánaðarlaun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði voru 436 þúsund krónur að meðaltali árið 2013. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 250-300 þúsund krónur og voru ríflega 17% launamanna með regluleg laun á því bili. Þá voru rúmlega 75% launamanna með regluleg laun undir 500 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun karla voru 475 þúsund krónur að meðaltali og regluleg laun kvenna 393 þúsund krónur. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Karlar með mun hærri heildarlaun en konur

Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 526 þúsund krónur að meðaltali á mánuði árið 2013. Algengast var að heildarlaun væru á bilinu 400-450 þúsund og voru tæplega 14% launamanna með laun á því bili. Þá voru tæplega 60% með heildarlaun undir 500 þúsund krónum á mánuði. Heildarlaun karla voru 591 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun kvenna 457 þúsund krónur.

Laun ríkisstarfsmanna lægri en á almennum markaði

Á almennum vinnumarkaði voru regluleg laun 467 þúsund krónur á mánuði árið 2013 og heildarlaun 556 þúsund krónur. Regluleg laun opinberra starfsmanna voru 397 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun 489 þúsund krónur. Þegar hópar opinberra starfsmanna eru skoðaðir nánar má sjá að regluleg laun ríkisstarfsmanna voru 438 þúsund á mánuði árið 2013 og heildarlaun 570 þúsund. Regluleg laun starfsmanna sveitarfélaga voru 356 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun þeirra 409 þúsund krónur. Opinberir starfsmenn teljast starfsmenn sveitarfélaga og starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins. Aðrir teljast til almenns vinnumarkaðar.

Engir með jafn lág laun og þeir sem annast fræðslu

Árið 2013 voru regluleg laun fullvinnandi hæst í fjármála- og vátryggingastarfsemi en þar voru regluleg laun 653 þúsund að meðaltali. Heildarlaun voru aftur á móti hæst í rafmagns- og hitaveitum en þar voru heildarlaun 702 þúsund að meðaltali á mánuði. Laun voru lægst í fræðslustarfsemi en þar voru regluleg laun 360 þúsund og heildarlaun 416 þúsund að meðaltali.

Laun starfstétta á almennum markaði

Laun á íslenskum vinnumarkaði árið 2013

Á fyrsta ársfjórðungi 2014 voru að jafnaði 181.900 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði og fjölgaði um 2% frá sama tíma ári áður eða um 3.600 manns. Jafngildir þetta 79,4% atvinnuþátttöku. Fjöldi fólks utan vinnumarkaðar var 47.200 og hefur því fólki fækkað um 1% frá fyrra ári eða um 500 manns. Atvinnuþátttaka kvenna var 75,9% og karla 82,9%. 

Á fjórða ársfjórðungi 2013 voru alls 178.300 á vinnumarkaði eða 78,9% atvinnuþátttaka og utan vinnumarkaðar voru þá 47.700. Atvinnuþátttaka kvenna var 76,3% og karla 81,4%.

Á fyrsta ársfjórðungi 2014 voru að meðaltali 10.500 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 5,8% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 5% hjá konum og 6,5% hjá körlum. Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2014 var 171.400 manns eða 74,8% af mannfjölda. Hlutfall starfandi kvenna var 72,1% og starfandi karla 77,5%.

Samanburður fyrsta ársfjórðungs 2014 við sama ársfjórðung 2013 sýnir að atvinnuleysi stendur í stað í 5,8% en starfandi fólki fjölgaði nokkuð á þessu tímabili eða um 3.500 sem er 2,1%.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Þegar litið er til síðustu sjö ársfjórðunga þá hefur dregið nokkuð úr langtímaatvinnuleysi. Á fyrsta ársfjórðungi 2014 höfðu um 1.700 manns verið langtímaatvinnulausir eða 0,9% vinnuaflsins samanborið við 2.600 eða 1,4% vinnuaflsins á fyrsta ársfjórðungi 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert