Þingmenn féllust í faðma

„Lífið er of stutt fyrir skammsýni. Úr vegi skal nú rutt allri þröngsýni,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis við þinglok fyrir stundu og bætti við: „Verum öll samtaka, þið verðið að meðtaka.“

Þannig vitnaði hann til hvatningarorða Pollapönkara sem hann sagði vonandi að Alþingi hafi tileinkað sér. Mátti sjá Óttarr Proppé, þingmann Bjartrar framtíðar og Pollapönkara, brosa breitt yfir þessum orðum.

Þingi var slitið nú á ellefta tímanum í kvöld eins og stefnt var að og féllust þingmenn í faðma eftir að hafa risið úr sætum til að þakka forseta Alþingis fyrir störf hans í vetur.

Alþingi ekki viljalaust verkfæri

Þingforseti sagði þingið hafa verið afar athafnasamt og ánægjulegt væri að tekist hefði að standa við starfsáætlun, þótt sveitarstjórnarkosningar hafi sniðið þeim þröngan stakk.

Hann sagði það athyglisverða þróun, sem hafi byrjað 2008-2009 og sé nú að festast í sessi, að þingmannamál verði æ stærri hluti afgreiddra mála. Á yfirstandandi þingi hafi fleiri þingmannamál verið samþykkt en nokkurn tíma fyrr.

„Óvíða er beinn þáttur og frumkvæði þingmanna í löggjafastarfi meiri en hér, sem sést meðal annars á því að þingmál sem lögð eru fram af ríkisstjórnum taka mun meiri breytingum í meðförum lögþings en annars staðar tíðkast,“ sagði Einar.

Þetta sé gagnstætt því sem oft sé sagt um Alþingi, sem hafi mátt sitja undir því að vera kallað viljalaust verkfæri framkvæmdavaldsins.

Einar sagði vissulega oft tekist hart á, það væri eðlilegt enda þingmenn fulltrúar ólíkra sjónarmiða og um sum mál næðist aldrei sátt. Störf þingsins í vetur hafi einkennst af hörðum átökum um ýmis mál, „en það er til marks um styrk Alþingis að okkur öðlast jafnan að ná samkomulagi um hvernig slík mál skulu leidd til lykta.“

Flest mál eru afgreidd í góðri pólitískri sátt, að sögn Einars, sem bætti því við að  það væri sannarlega vel og lýsi styrk löggjafasamkomunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert