„Leiðréttingin“ samþykkt á Alþingi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra héldu blaðamannafund …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra héldu blaðamannafund í desember þar sem skuldaleiðréttingin var kynnt. mbl.is/Ómar

Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, þ.e. höfuðstólslækkun húsnæðislána, með 33 atkvæðum gegn 22 atkvæðum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði þetta gleðistund fyrir alla hópa samfélagsins og alla þingmenn.

Sigmundur Davíð sagðist ætla að forðast það að raska ró stjórnarandstöðunnar „því þetta á að vera hátíðleg stund, gleðileg stund, sem þetta vissulega er. Hér er loksins verið að samþykkja mál sem beðið hefur verið eftir í fimm ár. Það er verið að koma til móts við millitekjufólk á Íslandi, sem hefur tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum og setið eftir þegar ráðist hefur verið í aðgerðir fyrir aðra.“

Hann sagði hins vegar að það feli ekki í sér að ekki verði hugað aðgerðum fyrir aðra hópa síðar. En þetta frumvarp sé upphafið að miklum framförum og viðspyrnu fyrir íslensk heimili. „Þess vegna er þetta gleðiefni fyrir alla hópa samfélagsins og alla þingmenn.“

Móðir allra kosningaloforða

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokks, kvaddi sér hljóðs til að gera grein fyrir atkvæði sínu. „Eftir að hafa hlustað á úrtöluraddir, rangfærslur og fordóma andstæðinga þessa máls frá því það var fyrst kynnt þá er ég afar glaður og stoltur af því að vera þátttakandi í því að uppfylla að fullu móður allra kosningaloforða.“

Hann sagðist hins vegar glaðastur fyrir hönd íslenskra heimila sem í dag hafi aftur eignast von og það fyrir tilstuðlan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann lauk svo ræðu sinni á þessum orðum: „Til hamingju með daginn Íslendingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert