Hálfa öld í Tryggingastofnun

Björg H. Sölvadóttir
Björg H. Sölvadóttir mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Björg Hulda Sölvadóttir var heiðruð í gær á starfsmannafundi Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Tilefnið var að hún hafði náð 50 ára starfsaldri hjá stofnuninni.

„Ég var 16 ára þegar ég byrjaði að vinna hjá Tryggingastofnun ríkisins árið 1962,“ sagði Björg. „Það eru því í raun 52 ár síðan ég byrjaði en ég hætti tvisvar, eitt ár í senn, þegar ég átti börnin mín.“ Eldri systir Bjargar, Edda Kristín, vann hjá TR og útvegaði Björgu vinnu þar eftir að hún lauk gagnfræðaprófi.

„Ég byrjaði fyrst að vinna á skrifstofu forstjóra sem þá var Sverrir Þorbjörnsson. Forstjórarnir eru búnir að vera fjórir síðan ég byrjaði,“ sagði Björg. Síðan fór hún í vélritunardeild og varð svo gjaldkeri og vann við það í nokkur ár. Einnig vann hún í sjúkratryggingadeild. Árið 2009 var sú deild flutt til Sjúkratrygginga Íslands. Þann 1. janúar 1990 var Björg skipuð yfirgjaldkeri TR. Hún gegndi því starfi í rúmlega 16 ár. Á þeim árum runnu mjög margir milljarðar í gegnum hennar hendur.

„Ég hef verið í hálfu starfi í fjárreiðudeild frá því ég hætti sem yfirgjaldkeri 1. maí 2006,“ sagði Björg. Maðurinn hennar, Sævar Vilhelm Bullock, hefur unnið hjá TR frá 1995 og er þar í fullu starfi.

Björg sagði ekki hægt að bera saman Tryggingastofnun í dag og þegar hún byrjaði þar fyrir 52 árum.

„Mesta breytingin var í kringum 1983 þegar byrjað var að tölvuvæða alla hluti,“ sagði Björg.

Hún hefur unnið öll árin í húsi TR við Laugaveg fyrir utan árið 1998 sem hún var „í útlegð“, eins og hún orðar það, í Tryggvagötu 28 þar sem Sjúkrasamlag Reykjavíkur var til húsa. Þá var verið að breyta húsi TR og voru gjaldkerar stofnunarinnar í Tryggvagötunni meðan á breytingunum stóð.

„Ástæðan fyrir því hvað ég hef verið hér lengi er að mér hefur líkað vel. Þótt ég hafi unnið hjá sömu stofnun hef ég gegnt mörgum störfum,“ sagði Björg. Hún sagði það hafa komið fram í máli Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur, forstjóra TR, á starfsmannafundinum í gær að fólk hrósaði stofnuninni heilmikið í tölvupóstum og á annan hátt. „Almennt virðist fólk vera ánægt með stofnunina í dag. Ef ég var spurð fyrir 20 árum hvar ég ynni sagði fólk: „Oj bara, vinnur þú hjá Tryggingastofnun?“ Ímynd stofnunarinnar hefur breyst mikið síðan þá. Sérstaklega síðustu tíu árin, vil ég meina. Hún varð svo miklu betri.“

Fullt var út úr dyrum

„Ég byrjaði fljótlega að vinna sem gjaldkeri á útborgunardögum. Þá var ellilífeyrir borgaður út 10. hvers mánaðar. Þann 12. var örorkulífeyrir borgaður út og fjölskyldubætur þann 15. Þetta var bara talið og borgað yfir borðið. Það var alltaf fullur salur, alveg út úr dyrum. Þetta voru miklir álagstímar,“ sagði Björg. Í kringum 1980 var farið að hvetja fólk til að fá greiðslurnar beint inn á banka.

„Gamla fólkið var sérstaklega tregt til þess. Því fannst gaman að koma hingað og hitta gamla félaga og vini. Það var mikið líf og fjör á útborgunardögunum í gamla daga,“ sagði Björg. Starfsmenn Búnaðarbankans komu með peningana fyrir útborgunardagana. Peningarnir voru geymdir í traustri öryggishvelfingu sem er í húsi TR og geymdi einnig skuldabréf Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert