Gleymdu að kjósa borgarstjóra

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson

„Ég tek þetta á mig. Það gleymdist að ganga til 2. og 3. liðar á dagskrá,“ sagði nýkjörinn forseti borgarstjórnar, Sóley Tómasdóttir, á fundi borgarstjórnar í dag. Annar liður dagskrár var kosning borgarstjóra. Var umræðu um 4. lið, sem var hafin, því frestað og fór kjörið fram.

Dagur B. Eggertsson fékk 9 atkvæði, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, fékk 2 atkvæði og 4 seðlar voru auðir.

„Þér er sannarlega fyrirgefið,“ sagði Dagur í ræðu sinni og beindi orðunum til Sóleyjar. Í kjölfarið þakkaði hann Jóni Gnarr, fráfarandi borgarstjóra, hans störf. Hann þakkaði Jóni fyrir hönd borgarfulltrúa og borgarbúa allra. „Ég hef lært mikið af Jóni og við höfum öll gert það, samfélagið allt. Hann hefur verið farsæll borgarstjóri, friðsæll borgarstjóri og góður borgarstjóri. Takk, Jón.“

Sveinbjörg og Guðfinna kusu sig

Fyrst á dagskrá var að kjósa forseta borgarstjórnar og fékk Sóley 9 atkvæði, Sveinbjörg Birna fékk 2 atkvæði og 4 seðlar voru auðir. Þegar kom að því að kjósa 1. varaforseta fékk Elsa Hrafnhildur Yeoman 9 atkvæði, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, fékk 2 atkvæði og 4 seðlar voru auðir. Þegar svo kosið var um 2. varaforseta fékk Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, 9 atkvæði, Sveinbjörg Birna fékk 2 atkvæði og 4 seðlar voru auðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert