Hefur áhuga á að koma til Íslands

Phulmzile Mlambo-Ngcuka og Eygló Harðardóttir
Phulmzile Mlambo-Ngcuka og Eygló Harðardóttir

Phulmzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, hefur lýst áhuga á að heimsækja Ísland á næsta ári. Hún var sérstakur gestur ráðstefnunnar Nordiskt Forum í Malmö sem lauk um helgina og þar áttu hún og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fund saman.

Mlambo-Ngcuka lýsti yfir áhuga á að heimsækja Ísland í tilefni af tuttugu ára afmæli framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking í þeim tilgangi að kynna íslenskum stjórnvöldum, félagasamtökum og almenningi starf samtakanna, að því er fram kemur á vef velferðarráðuneytisins.

Vill standa vörð um Peking- áætlunina

Norrænar kvennahreyfingar hafa lengi kallað eftir ákvörðun Sameinuðu þjóðanna um nýja alþjóðlega kvennaráðstefnu en Phulmzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýra UN Women gerði í Malmö grein fyrir þeirri afstöðu samtakanna að standa ætti vörð um framkvæmdaáæltunina frá Peking í stað þess að semja um nýja stefnumótun. Framkvæmdaáæltunin sé enn í fullu gildi þar sem ekkert ríki heims hafi að fullu uppfyllt þau markmið sem þar eru skilgreind. Hins vegar muni UN Women fara í sérstakt átak í tilefni af tuttugu ára afmæli áætlunarinnar á næsta ári en árið 2015 munu einnig ný sjálfbær þróunarmarkmið taka við af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Á fundi Eyglóar og Mlambo-Ngcuka í Malmö ítrekaði framkvæmdastýran mikilvægi þess að Norðurlöndin hafi stutt málflutning UN Women um aðaukið kynjajafnrétti væri lykillinn að nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum. Hún þakkaði einnig fyrir stuðning við baráttu samtakanna um að sérstakt markmið verði sett um réttindi og valdeflingu kvenna. Sú barátta hefur nú hefur borið árangur en enn eru samningaviðræður í gagni um að að kynjasjónarmið verði jafnframt samþætt öðrum markmiðum. Mlambo-Ngcuka sagði að framlag íslenskra sérfræðinga og landsnefndar UN Women til starfsemi samtakanna vera ómetanlegt og að mörgu leyti til fyrirmyndar fyrir önnur lönd. Hún lýsti einnig yfir áhuga að heimsækja Ísland á næsta ári í tilefni af tuttugu ára afmæli framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking í þeim tilgangi að kynna íslenskum stjórnvöldum, félagasamtökum og almenningi starf samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert