Mörg fíkniefnamál á tónlistarhátíð

Á þriðja tug einstaklinga verða kærðir fyrir vörslur vímuefna á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem hófst í Laugardalnum í gær. Lögreglan á höfuðborgarsvæðin hélt úti virku eftirliti á hátíðinni í gærkvöldi og nótt og komu upp allmörg fíkniefnamál. Flest þeirra vörðuðu neysluskammta.

Snemma í gærkvöldi höfðu lögreglumenn svo afskipti af ungum manni í Laugardalnum. Maðurinn var grunaður um vörslur fíkniefna en fór ekki að fyrirmælum lögreglu og reyndi að hlaupa á brott. Hann var því snarlega handtekinn og vistaður í fangageymslu á meðan mál hans var í vinnslu hjá lögreglunni.

Síðar sama kvöld var ungur maður í mjög annarlegu ástandi handtekinn í Laugardalnum grunaður um vörslur fíkniefna. Hann var vistaður í fangaklefa sökum ástands. 

Taka ber fram að langflestir gesta tónlistarhátíðarinnar voru til fyrirmyndar en nokkur þúsund manns skemmtu sér þar í gærkvöldi og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert