Segir aðferðarfræðina kolranga

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. Mynd/SFR

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir aðferðarfræðina að flytja heilar ríkisstofnanir á milli landshluta vera kolranga. „Við höfum fylgst með því að nágrannaþjóðir okkar hafa gefist upp á þessari aðgerð, enda er hér verið að rífa upp bæði stofnunina og raska lífi starfsmanna, maka þeirra og barna vegna flutninganna,“ segir Árni í frétt á vef SFR.is vegna frétta af flutningi Fiskistofu til Akureyrar. 

Hann segist efast um að margir starfsmenn muni fylgja stofnuninni, miðað við hvernig hljóðið í þeim sé núna. „Þekkingin og reynslan sem tapast við þetta er mikil og það hefur sýnt sig að það tekur stofnun nokkur ár að ná aftur fyrri reisn eftir slíka flutninga. Við erum sannarlega ekki á móti því að fjölga opinberum störfum út á landsbyggðinni, en þessi aðferðafræði gengur ekki,“ segir Árni og telur að raunhæfari leið væri að staðsetja ný verkefni eða deildir úti á landi svo þær geti vaxið þar frá byrjun.

Hann segir að SFR muni styðja sína félagsmenn og vonar að þessi ákvörðun verði endurskoðuð. Á næstu dögum mun félagið setja sig í samband við ráðuneytið til að fylgja málinu eftir og fara frekar yfir fyrirhugaða framkvæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert