Tökum á Halo hér á landi að ljúka

Tökuliðið var í Þórsmörk í síðustu viku
Tökuliðið var í Þórsmörk í síðustu viku mbl.is/Brynjar Gauti

Erlent tökulið á vegum Microsoft hefur dvalið á Íslandi undanfarið við tökur á kvikmynd sem byggð verður á hinum vinsælu tölvuleikjum Halo. Ekki er um að ræða hefðbundna kvikmynd sem fer í sýningu í kvikmyndahúsum, heldur verður hún gefin út samhliða tölvuleik til spilunar á XBOX-leikjavélinni.

Glæsileg og fjölbreytt náttúra

Tökuliðið sást meðal annars í Þórsmörk í síðustu viku, en forsvarsmenn verkefnisins segja Ísland hafa hentað vel í tökurnar vegna glæsilegrar og fjölbreyttrar náttúru.

„Fyrst og fremst vildum við finna stað sem væri fjarlægur og framandi en að sama skapi ólýsanlega fallegur. Ísland hefur verið notað í verkefni af þessu tagi í síauknum mæli síðasta áratuginn og við sjáum greinilega hvers vegna,“ segir Kiki Wolfkill, einn framleiðenda myndarinnar.

Wolfkill segir Ísland hafa margt til brunns að bera og gott hafi verið að vinna með Íslendingum.

„Á Íslandi eru góðir innviðir og tæknifólk, en fyrst og fremst nánast óendanlegt flæmi gullfallegs landslags. Ægileg eldfjöll, langar sléttur, leyndir dalir og bullandi hverir. Við höfum tekið upp vítt og breitt um landið og margir þessara staða munu verða hluti af persónuleika myndarinnar en ekki aðeins staðsetning,“ segir Wolfkill.

Gerast í fjarlægri framtíð

Halo-leikirnir eru gríðarlega vinsælir og hafa selst í milljónum eintaka. Þeir gerast í framtíðinni þar sem mannkynið stendur í stríði við verur af fjarlægum heimi og berst fyrir því að halda jörðinni undir sínum yfirráðum. Nokkrir leikir hafa verið gefnir út, en þeir hafa hver sína undirsögu. Wolfkill segir að myndin verði byggð á heildarsögu Halo, en þó muni ein sögupersóna spila stórt hlutverk í henni sem kemur fram í leiknum Halo 5: Guardians á næsta ári.

„Okkur finnst mikilvægt að skapa sögur sem laða að nýja leikmenn í Halo-veröldina. Einnig viljum við fullnægja kröfum Halo-spilara sem þegar þekkja grunninn í leikjunum og sögunni. Von okkar er að fólk sem spilar bæði leikinn og horfir á myndina muni kunna betur að meta nýju sögupersónuna og hlutverk hennar. Allir ættu þó að geta notið myndarinnar,“ segir Wolfkill.

Vinalegir og hæfileikaríkir heimamenn

Myndin er einnig tekin upp á Írlandi, en að sögn Wolfkill eiga löndin ýmislegt sameiginlegt.

„Okkar saga gerist á mörgum stöðum og sviðum. Við tókum þó mest upp á Íslandi og Írlandi. Við sáum ýmis líkindi milli landanna en þau koma ekki mikið fram í myndinni. Það sem löndin eiga hins vegar greinilega sameiginlegt eru vinalegir og hæfileikaríkir heimamenn.“

Wolfkill gat ekki gefið upp hverjir léku í myndinni en sagði að til stæði að kynna frekar umgjörð hennar og þá sem að henni koma á teiknimyndasöguhátíð í San Diego í júlí. Hann sagði þó að verkefnið nú yrði öllu umsvifameira en „Halo: Forward Unto Dawn“ sem kom út árið 2012.

Þáttaröð með Spielberg?

Einnig stendur til að gefa út þáttaröð byggða á Halo, en hún verður að sögn Wolfkill ótengd verkefninu sem hér er unnið að. Hún gat ekki gefið upp hvort þættirnir yrðu teknir upp á Íslandi að einhverju leyti.

Samkvæmt frétt Rolling Stone hyggst hinn þekkti leikstjóri Steven Spielberg hins vegar koma að gerð þáttanna og verður því að öllum líkindum um stórt verkefni að ræða.

Tökum á Halo-myndinni lýkur fljótlega hérlendis, en Wolfkill segir tökulið og starfsmenn hafa notið dvalarinnar hér til hins ýtrasta. „Við ljúkum tökum á Íslandi fljótlega en við munum yfirgefa þetta fallega land með söknuði.“

Framleiðandinn Kiki Wolfkill segir Ísland frábæran tökustað
Framleiðandinn Kiki Wolfkill segir Ísland frábæran tökustað
Halo leikirnir hafa notið mikilla vinsælda
Halo leikirnir hafa notið mikilla vinsælda Ljósmynd/Halo Wikia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert