Fávitahegðun er ekkert í boði

Árshátíð þungarokkara fer fram í 10. sinn þegar Eistnaflug hefur sig á loft eftir slétta viku. Stefán Magnússon er prímus mótor hátíðarinnar og segir alla vera velkomna austur. Þarna sé sterkt bræðra- og systralag þar sem gleði ráði ríkjum í takt við dökka tóna rokksins.

Eistnaflug hefur haft gott orðspor á sér sem útihátíð enda segir Stefán að hann og hans lið á bak við tjöldin myndu ekki nenna að standa í þessu ef það væri ekki svona gaman. „Við höfum sagt frá upphafi: Við erum að halda skemmtilega helgi. Við erum að halda hátíð og partí – eitthvað sem er skemmtilegt. Misþyrmingar og annað ofbeldi á ekkert heima á þessari hátíð.  Ég held ég myndi ekki nenna þessu ef hátíðin væri full af ógeði eftir að flautað hefði verið til leiksloka,“ segir hann og bætir við.

„Fávitahegðun er ekkert í boði á Eistnaflugi enda er hún ekkert samþykkt í þessum hópi. Það er bara þannig. Þú getur verið eins og þú ert, í skrýtnu fötunum þínum með rokkarakeðjuna og með skrítna hárið þitt hvort sem það er gult eða blátt og það er enginn að tjá sig eitthvað sérstaklega um það. Þú færð bara að vera eins og þú vilt vera. Það er æðislegt.“

Allar stelpur velkomnar

Fjöldi kvennagesta á hátíðinni hefur aukist jafnt og þétt og helst það í hendur við fjölda kvennahljómsveita sem spila á hátíðinni. Angist, Mammút og Reykjavíkurdætur spila á sitthvorum tónskalanum en sameinast á Eistnaflugi. „Konum er alltaf að fjölga í áhorfendahópnum. Kannski af því að þetta er svo notaleg hátíð.
Það er alltaf mikið partí í kringum miðasöluna þar sem konan mín, systur mínar og vinkonur okkar standa vaktina. Þar smitast þessi stelpugleði og endurspeglar hvað allar stelpur eru velkomnar í hópinn.“

Stefán sagðist vera þakklátur fyrir viðtökurnar sem hátíðin hefur fengið, en allt stefnir í að það verði uppselt á Eistnaflug sjötta árið í röð. „Það hefur verið myljandi mæting og nú er búið að vera uppselt hjá okkur síðustu fimm ár. Það er magnað ef ég á að vera hreinskilinn. Að vera með þungarokkshátíð á Austurlandi er ekkert grín en þeir sem hafa mætt vita að þarna er einstakt að vera.“ 

Hægt er að hlýða á boðskap hátíðarinnar hér að neðan eftir rúmar 20 sekúndur með Björgvini Sigurðssyni, söngvari Skálmaldar. 

Fjara með Sólstöfum. Gestasöngvari Stefán Jakobsson úr Dimmu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert