Rannsókn á hvarfi Ástu heldur áfram

Ekkert hefur spurst til Ástu Stefánsdóttur síðan 11. júní.
Ekkert hefur spurst til Ástu Stefánsdóttur síðan 11. júní.

Lögreglan mun halda áfram rannsókn á hvarfi Ástu Stefánsdóttur, 35 ára lögfræðings, en ekkert hefur spurst til hennar síðan 11. júní. Leit björgunarsveitanna að Ástu er þó formlega lokið, eins og áður hefur komið fram.

„Við höfum áfram eftirlit með þessu svæði. Fylgjumst með netinu í Markarfljóti og gljúfrinu sjálfu,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Hvolsvelli sem hefur rannsakað málið. Héðan af mun þó lögregluembættið á Selfossi hafa umsjón með rannsókninni.

Um mannshvörf sem þetta gilda lög um horfna menn frá árinu 1981. Þar segir í 1. gr. laganna að héraðsdómari hafi úrskurðarvald um hvort að bú manna sé tekið til meðferðar líkt og þeir væru látnir. Þetta gerir dómarinn að kröfu maka hins horfna, niðja hans eða annarra sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta.

Meginreglan er að þrjú ár skuli líða áður en slík krafa er borin fram. Hins vegar gildir önnur regla þegar sýnt er að hinn horfni einstaklingur hafi ratað í lífsháska eða miklar líkur eru á því að öðru leyti að hann sé látinn. Þá skulu líða fjórir mánuðir áður en slík krafa berst dómara.

Sveinn Kristján vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa komið að leitinni. „Kært þakklæti til allra leitarmanna sem komu að þessu og allra þeirra fyrirtækja sem hafa stutt dyggilega við björgunarsveitina með því að lána búnað og gefið efni til þess að leitin hafi verið möguleg,“ segir Sveinn Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert