Kannabisneysla Íslendinga orðum aukin

Maríjúana reykt.
Maríjúana reykt. AFP

Staðhæfingar þess efnis að Ísland sé nokkurs konar útópía kannabisneytenda og að hér á landi sé að finna flesta kannabisreykingamenn miðað við höfðatölu hafa birst að undanförnu á netinu. Er þá gengið út frá nýjum tölum fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) - sem eru misvísandi.

Í skýrslu UNODC segir að árið 2012 hafi 18,3% þjóðarinnar í aldursflokknum 18-68 ára notað kannabisefni. Það er hæsta hlutfall allra þjóða og samkvæmt skýrslunni skýtur Ísland þekktum kannabisþjóðum á borð við Jamaíku, Hollandi og Bandaríkjunum ref fyrir rass. Íslenskir fjölmiðlar hafa birt fréttir byggðar á skýrslu UNODC en ekki síður erlendir og hefur því Ísland fengið á sig þann stimpil að vera eins konar athvarf kannabisreykingafólks.

Til dæmis hefur verið vitnað á erlendum síðum til orða Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Ísalnds, um að afglæpavæða ætti notkun kannabisefna á Íslandi. Það sagði hann hins vegar aldrei heldur var um aprílgabb að ræða.

En þrátt fyrir að kannabisnotkun hafi aukist á Íslandi trónir landið ekki á toppnum, eins og skýrsla UNODC gefur til kynna. Tölfræðin er byggð á upplýsingum frá embætti landlæknis sem lét gera könnun á notkun kannabisefna í lok árs 2012. Í úrtakinu voru 1.751 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára, á landinu öllu. Svarhlutfallið var 58,3%.

Lesa má í skýrslu landlæknis að 35,9% höfðu einhvern tíma á ævinni prófað kannabisefni og hafði það hækkað mikið frá fyrri könnunum, en hlutfallið var 24,7% árið 2004 og 23,5% árið 2001. Þeir sem prófað höfðu kannabisefni voru síðar spurðir að því hversu oft þeir notuðu kannabisefni á síðustu tólf mánuðum. Af þeim svöruðu 81,7% að þeir hefðu ekki notað kannabisefni á árinu 2012.

Ísland fellur niður í 29. sæti

Þannig að af þeim Íslendingum sem prófað höfðu kannabisefni í lok árs 2012 notuðu 18,3% efnið það sama ár, og er hlutfallið sambærilegt við fyrri mælingar. Það er sú prósentutala sem UNODC setur fram sem hlutfall af Íslendingum sem notað hafa kannabisefni.

Eðlilegra hefði hins vegar verið ef 6,6% hefði staðið í skýrslu UNODC en það er hlutfall þjóðarinnar sem reykti kannabisefni á árinu 2012. Ef miðað er við þá prósentutölu fellur landið niður í 29. sæti og er í hópi með Púertó Ríkó, Trínidad og Tóbagó og Danmörku.

Eflaust kann það hlutfall að þykja ansi hátt en alla vega er ljóst að Ísland er ekki sú þjóð sem hafði að geyma flesta kannabisreykingamenn árið 2012, miðað við höfðatölu.

Umfjöllun um niðurstöðurnar í erlendum miðlum:

Washington Post

News.Mic

Leaf Science

Taflan sem fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNODC) birtir um …
Taflan sem fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNODC) birtir um kannabisneyslu Íslendinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert