Young frumflutti nýtt lag á tónleikunum

Kanadíski tónlistarmaðurinn Neil Young frumflutti á tónleikum sínum í Laugardalshöll í gærkvöldi nýtt lag, Who's Gonna Stand Up And Save The Earth. Þá tók hann lagið Separate Ways sem hann tók síðast - og aðeins einu sinni - árið 2008. Á tónleikaferð árið 1993 tók hann lagið töluvert oftar.

Góður rómur var gerður að tónleikum Youngs sem meðal annars lofaði áhorfendum því að sækja Ísland heim að nýju. Young, sem er 69 ára, steig á svið rétt eftir klukkan 21 í gærkvöldi og tók sér ekki hlé fyrr en kom að því að klappa hann upp klukkan 22.40. Hann tók hins vegar þrjú róleg lög um miðbik tónleikana einsamall, Only Love Can Break Your Heart, Blowin' In The Wind eftir Bob Dylan og Heart Of Gold, og gaf hljómsveitinni tíma til að hvíla sig. Þurfti enda enga hljómsveit á þeim tíma þar sem áhorfendur sungu hástöfum með.

Á lagalista Youngs mátti einnig finna lagið Goin' Home sem hann hefur ekki tekið á tónleikum síðan árið 2003 og Days From Used To Be en 23 ár eru síðan Young tók það síðast á tónleikum.

Tónleikagestir fengu því að sjá Young taka mörg lög sem hann spilar ekki alla jafna.

Lagalisti kvöldsins:

Love and Only Love (Ragged Glory, 1990)
Goin' Home (Are You Passionate?, 2002)
Days That Used To Be (Ragged Glory, 1990)
Don't Cry No Tears (Zuma, 1975)
Love To Burn (Ragged Glory, 1990)
Separate Ways (Óútgefið, 1975)
Only Love Can Break Your Heart (After The Goldrush, 1970)
Blowin' In The Wind (Weld, 1991)
Heart Of Gold (Harvest, 1972)
Barstool Blues (Zuma, 1975)
Psychedelic Pill (Psychedelic Pill, 2012)
Who's Gonna Stand Up And Save The Earth (nýtt)
Rockin' In The Free World (Freedom, 1996)

Uppklappslag:

Like A Hurricane (American Stars & Bars, 1977)

Næstu tónleikar Neils Youngs og Crazy Horse verða í Cork á Írlandi 10. júlí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert