Framdi afbrot daginn eftir dóm

AFP

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir 32 ára karlmanni sem fjármagnar dagneyslu sína á fíkniefnum með afbrotum. Stutt er síðan hann var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Daginn eftir uppkvaðningu dómsins var maðurinn gripinn fyrir þjófnað.

Maðurinn hefur frá 24. október 2012 fimm sinnum hlotið fangelsisdóm fyrir auðgunarbrot, síðast 24. júní síðastliðinn þegar hann var dæmdur í tólf mánaða fangelsi. Hann hefur við skýrslutökur hjá lögreglu viðurkennt að hafa 25. júní stolið vörum úr lyfjaverslun og aftur 3. júlí en þá stal hann vörum fyrir 67 þúsund krónur úr Lyfju.

Þá er þess getið í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að tilkynnt hafi verið um manninn í verslun Útilífs 1. júlí síðastliðinn en hann hafi virst vera í miklu ójafnvægi og var starfsfólk hrætt við hann. Hann hafi ráfað um búðina, tekið gosdrykk úr kæli, fengið sér sopa og skilað flöskunni aftur.

Maðurinn er atvinnulaus og er í daglegri neyslu fíkniefna. Hann framfleytir sér og fjármagnar neyslu sína með afbrotum. Talið er víst að hann haldi áfram afbrotum gangi hann laus.

Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur féllust á kröfu um að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi til 1. ágúst næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert