Mjög lítið af radoni í húsum á Íslandi

Hvergi mældist radonstyrkur hér á landi það hár að bregðast …
Hvergi mældist radonstyrkur hér á landi það hár að bregðast þurfi við með sérstökum aðgerðum að sögn Geislavarna ríkisins. mbl.is/Sigurður Bogi

Mælingar Geislavarna ríkisins (GR) sýna fram á að styrkur radons í húsum á Íslandi er mjög lítill, sér í lagi samanborið við nágrannalöndin og langt undir viðmiðununarmörkum Evrópusambandsins. Radon er náttúrulegt geislavirkt gas sem getur - ef styrkur þess er mjög hátt - aukið hættu á lungnakrabbameini.

Þetta kemur fram á vef GR, en greint er frá því að búið sé að gefa út skýrslu um rannsókn stofnunarinnar um styrk radons í húsum á Íslandi. Rannsóknin fór fram 2012 og 2013.

Tekið er fram að hvergi hafi styrkur radons mælst það hár hér á landi að það hafi þurft að bregðast við með sérstökum aðgerðum.

Fram kemur, að radon sé náttúrulegt geislavirkt gas sem komi úr bergi og geti safnast upp í húsum. Innöndun radons valdi geislun á lungun og vitað sé að hár styrkur radons auki hættu á lungnakrabbameini marktækt.

„Víða erlendis, sérstaklega á Skandinavíuskaganum þar sem berggrunnurinn er úr graníti, veldur radon stærsta einstaka þættinum í geislaálagi almennings,“ segir á vef Geislavarna.

Greint er frá því, að árin 2012 og 2013 hafi Geislavarnir ríkisins tekið þátt í stóru evrópsku rannsóknarverkefni um styrk radons í húsum og stóð stofnunin fyrir mælingum á radoni í innilofti íslenskra húsa. Mælt var á samtals 250 heimilum og um það bil 50 vinnustöðum (leikskólum og sundstöðum) víðsvegar um landið.

„Niðurstöður mælinganna eru í stuttu máli þær að mjög lítið er af radoni hér á landi, landsmeðaltalið er reyndar með því lægsta sem þekkist í heiminum. Þetta kemur ekki á óvart enda er berggrunnurinn hérna að mestu úr basalti sem er rýrt af náttúrulegum geislavirkum efnum.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að meðalstyrkur radons í húsum á Íslandi er 13 Bq/m³ og miðgildi styrksins er 9 Bq/m³. Fjöldi mælinganna gefa niðurstöðu við eða undir greiningarmörkum og um 95% þeirra eru undir 40 Bq/m³. Hæsta mælingin gefur 79 Bq/m³. Ekki er marktækur munur á milli landshluta nema hvað styrkur radons á Norðurlandi er aðeins hærri en í öðrum landshlutum. Mælingarnar á sundstöðum og leikskólum gáfu enn lægri tölur. Hvergi mældist radonstyrkur hér á landi það hár að bregðast þurfi við með sérstökum aðgerðum,“ segir á vef GR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert