Bandaríska sendiráðið kaupir hús

„Í dag var gleðidagur hér í sendiráðinu,“ segir á Facebook síðu sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi í dag. Tilefnið er undirritun kaupsamnings um kaup á nýju húsi við Engjateig í Reykjavík. Sendiráðið hefur um nokkurt skeið haft til skoðunar að flytja sig um set frá Laufásveginum.

„Núverandi húsakynni hér við Laufásveginn eru orðin of lítil og henta starfseminni ekki lengur,“ sagði Kristinn Gilsdorf upplýsingafulltrúi sendiráðsins í samtali við Morgunblaðið í febrúar.

Sendiráðið kaupir húsið við Engjateig sjö af verktakafyrirtækinu Ístaki hf., en höfuðstöðvar fyrirtækisins voru þar til skamms tíma. Húsið er rúmlega 2.000 fm að flatarmáli, byggt árið 2002. Fram kemur á Facebook-síðu sendiráðsins að samið hafi verið við Ístak um að gera endurbætur á húsinu svo það verði hæft undir starfsemina, en þar þarf m.a. að huga að öryggismálum.

„Enn er ekki komin dagsetning á flutninga, en við erum mjög spennt!“ segir á Facebook-síðu sendiráðs Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn opnuðu sendiráð hér á landi árið 1941. Það sama ár var húsið á Laufásvegi 21-23 byggt og hefur skrifstofa sendiherrans verið þar alla tíð síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert