Hljóp Laugaveginn á mettíma

Þorbergur Ingi Jónsson fagnaði í Húsadal þegar hann náði settu …
Þorbergur Ingi Jónsson fagnaði í Húsadal þegar hann náði settu takmarki og lauk Laugavegshringnum á mettíma, 4 mínútum, 7 mínútum og 47 sekúndum. Ljósmynd/Anna Lilja Sigurðardóttir

„Ég ætlaði að slá met, ég ætlaði ekki af stað öðru vísi,“ segir Þorbergur Ingi Jónsson sem hljóp 55 km um öræfi Laugavegarins í dag á 4 klukkutímum, 7 mínútum og 47 sekúndum. Þar með sló hann met Björns Margeirssonar frá 2012 um 12 mínútur. Krapasnjór var í Hrafntinnuskeri og blautviðri alla leiðina.

„Það var frekar kalt til að byrja með, rigning og sterkur vindur en hann var aðeins á hlið, ekki beint í fangið. Í Hrafntinnuskeri var svolítið leiðinlegur snjókrapi sem maður sökk ofaní ískaldan og þá leist mér ekki á blikuna, en það er náttúrulega svo hátt uppi í fjöllum svo ég vissi að það myndi skána þegar neðar drægi,“ segir Þorbergur um aðstæður í hlaupinu í dag.

Mikið rigningarveður hefur verið undanfarið og voru þær fjölmörgu ár, sem vaða þarf yfir á leiðinni, mjög vatnsmiklar. Hlaupararnir hafa ekki fyrir því að skipta um skó heldur láta sig bara gossa. „Það er enginn tími fyrir svoleiðis. Maður hægir auðvitað aðeins á sér, því maður vill ekki detta í ánni, en þegar maður er ákveðinn í að setja met þá bara fer maður áfram,“ segir Þorbergur. 

Þeir sem ganga Laugaveginn gera það flestir til að virða fyrir sér óviðjafnanlega fegurð landslagsins. Á hlaupum horfir svolítið öðru vísi við. „Ég er ekkert mikið að líta í kringum mig, en ég nýt þess auðvitað að hlaupa,“ segir Þorbergur.

Göngufólk hvatti hann áfram

Alls voru 365 hlauparar skráðir til keppni í ár. Þorbergur hafði nokkuð gott forskot, en annar í mark var Örvar Steingrímsson sem fór með sigur af hólmi í karlaflokki í fyrra, en hljóp á 4 tímum, 46 mínútum og 15 sekúndum í ár. Í þriðja sæti var Bandaríkjamaðurinn Elliot Brake, á 5 tímum og 59 sekúndum.

„Ég var frekar einmana allt hlaupið, en svo er gaman þegar maður nálgast Þórsmörk því þá er fleira göngufólk á ferli, bæði útlendingar og Íslendingar sem hvetja mann áfram,“ segir Þorbergur.

Hann tók síðast þátt í Laugavegshlaupinu árið 2009 og sló þá líka brautarmet, en hann segist hafa æft sig betur núna. „Það skiptir mestu máli að vera með góðan styrk í brekkunum, bæði upp og niður, og svo skiptir líka mjög miklu máli að hafa farið langar vegalengdir til að venja líkamann við. Þegar ég hljóp þetta 2009 var ég að æfa fyrir 1.500 metra hlaup, svo ég æfði ekkert fyrir Laugaveginn og líkaminn fór alveg í klessu eftir það.“

Þorbergur segist nú spenntur fyrir því að hvíla sig aðeins, enda æfði hann mikið til að ná þessum árangri í dag. Það verður þó ekki löng hvíld, því næst á dagskrá er að koma sér í form fyrir maraþon í München í Þýskalandi í október.

Laugavegshlaupið er ekki fyrir hvern sem er heldur aðeins þrautþjálfaða …
Laugavegshlaupið er ekki fyrir hvern sem er heldur aðeins þrautþjálfaða hlaupara. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert