Líkt og að horfa á stjörnuhiminn

Í herberginu eru dýnur með ýmsum ljósum og vatnssúlum sem …
Í herberginu eru dýnur með ýmsum ljósum og vatnssúlum sem örva skynfæri krakkanna. mbl.is/Ómar

„Þetta er herbergi sem við getum notað í ýmissi slökun og skynörvun, öðruvísi örvun en þeirri sem við getum veitt þeim. Krakkarnir fá að slaka á og skoða ljós, segir Andrés Páll Baldursson, vaktstjóri í Reykjadal en í dag fékk Reykjadalur formlega afhent sérútbúið skynörvunarherbergi (Snoezelenherbergi) sem með skynörvun á að meðhöndla og auka lífsgæði og líðan fólks með fötlun.

Um 280 börn og ungmenni dveljast í sumarbúðum Reykjadals á hverju sumri, um 26-30 í hverri viku. Hafa sumarbúðirnar verið starfræktar í Reykjadal í Mosfellsdal af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra frá árinu 1963. 

Vatnssúla með ljósi og fiskum

Herbergið er meðal annars útbúið dýnum með fjölbreyttu ljósi sem krakkarnir geta skoðað og snert. „Ein dýnan er með ljósleiðaratengi þar sem fullt af ljósleiðaraslöngum sem koma út. Krakkarnir geta verið umvafin um þær og snert þær.“

„Í þessari sömu dýnu er vatnssúla sem er um einn og hálfur metri á hæð og um hana fara loftbólur og litlir fiskar, auk þess sem hún skiptir um lit. Það er spennandi bæði fyrir snertingu og sjón. Svo erum við með slökunartónlist í gangi líka,“ segir Andrés. Önnur dýna sem er í herberginu er útbúin þúsundum lítilla stjörnuljósa. Dýnan er hengd á vegginn og þá geta börnin legið á gólfinu og horft á dýnuna líkt og um stjörnuhiminn sé að ræða. 

Mikil stemning en nauðsynlegt að slaka á líka

Andrés segir börnin hafa tekið afar vel í nýjungina í dag. „Við erum búin að nota þetta mikið í dag. Það er merkilegt hvað þau sækjast í þetta, jafnvel ólíklegustu einstaklingarnir. Við erum mikið í því að sjá um fjör og að halda uppi stemningu en það er nauðsynlegt fyrir krakkana að slaka á líka.“

Það voru samtökin Kids Parliament, sem söfnuðu fyrir herberginu og afhentu sumarbúðunum það. Voru fulltrúar þeirra, sem og fulltrúar styrktarfélagsins viðstaddir opnun herbergisins áðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert