Rólegt á höfuðborgarsvæðinu í nótt

Lögreglan.
Lögreglan. mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Næturlíf miðborgarinnar virðist hafa verið tiltölulega rólegt í nótt ef marka má lögreglu, sem segir oft hafa verið meira að gera á höfuðborgarsvæðinu. Má hugsanlega rekja það til þess að margir hafi farið út úr bænum í leit að betra veðri.

Þó voru höfð afskipti af nokkrum, oftast í tengslum við fíkniefni. Fjórir gistu í fangageymslum í nótt.

Laust fyrir klukkan 18 í gærkvöldi var ökumaður handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Hann var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.

Um áttaleytið í gærkvöldi var ökumaður handtekinn í austurbænum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hann einnig réttindalaus eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum. Honum var sleppt að lokinni sýnatöku.

Stuttu síðar sást maður í Hafnarfirði kasta einhverju frá sér sem talið er að hafi verið fíkniefni. Við leit á manninum fundust fleiri slík efni. Málið var afgreitt með skýrslutöku á vettvangi.

Á miðnætti var maður stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur. Honum var sleppt að lokinni sýnatöku.

Klukkan tvö í nótt voru tveir ökumenn stöðvaðir í miðborginni á sama tíma af sömu lögreglumönnum. Báðir ökumenn voru undir áhrifum fíkniefna við aksturinn og til viðbótar var annar ökumaðurinn með fíkniefni í fórum sínum en hinn hafði ekki öðlast ökuréttindi. Báðum var sleppt lausum að lokinni sýna- og skýrslutöku.

Loks var ökumaður stöðvaður í miðborginni klukkan 4 í nótt vegna gruns um ölvun við akstur. Honum var sömuleiðis sleppt þegar sýni hafði verið tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert