Stærsta götuhjólakeppni landsins í dag

Gullhringurinn 2013.
Gullhringurinn 2013.

Vegfarendur í uppsveitum Árnessýslu eru beðnir um að sýna aðgát í dag þegar stærsta götuhjólakeppni landsins, KIA gullhringurinn, fer fram á Biskupstungnabrut, Þingvallaleið og Lyngdalsheiði. Alls taka 350 hjólreiðamenn þátt, en keppnin er ræst frá Laugarvatni kl. 10.

Hjólaðar eru þrjár mismunandi vegalengdir, 48 km, 65 km og 106 km. Meðal keppenda eru margir bestu hjólreiðamenn landsins, m.a. María Ögn Guðmundsdóttir og Hafsteinn Ægir Geirsson sem sigruðu Gullhringinn 2013. Þá þreytir Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra sitt fyrsta hjólreiðamót.

Fyrirmynd keppninnar er Vatternrundan-mótið í Svíþjóð, þar sem hjólað er umhverfis vatn eins og segja má að gert sé í Gullhringnum. Þar keppa 30.000 manns á hverju ári og telur Áslaug Einarsdóttir forsprakki Gullhringsins því að keppnin gæti vaxið mjög á Íslandi.

„Það er markmið okkar að keppendur í Gullhringnum verði um 3000 á 10 ára afmæli hans árið 2022,“ er haft eftir Áslaugu í fréttatilkynningu.

Mikil vakning hefur verið á Íslandi síðustu ár í hjólakeppnum og þríþrautar keppnum hverskonar og keppendur í þessum íþróttagreinum um allan heim leita sífellt eftir skemmtilegri áskorunum til að takast á við. Árið 2012 var haldin fyrsta WowCyclothon keppnin þar sem hjólað er í kringum landið en á sama ári var Gullhringurinn fyrst haldin. Fyrst tóku um 90 manns þátt í Gullhringnum en í fyrra voru 200 keppendur mættir til leiks. Skipuleggjendur mótsins í ár gera ráð fyrir um 300 keppendum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert