Yfirliðið er liðið sem ætlar yfir

Yfirliðið - Liðið sem syndir yfir Ermasundið og til baka
Yfirliðið - Liðið sem syndir yfir Ermasundið og til baka

Fimm kvenna sundteymi hyggst spreyta sig á því að synda boðsund yfir gervalt Ermasundið frá Englandi til Frakklands og aftur til baka í næstu viku, en engin önnur íslensk sundsveit hefur afrekað slíkt áður. Synt verður til styrktar AHC samtökunum.

Sundsveitin sem um ræðir kallar sig Yfirliðið og flýgur út fimmtudaginn 17. júlí. Titill sveitarinnar á sér tvöfalda merkingu, að sögn Sigrúnar Þuríðar Geirsdóttur, yfirliðsmeðlims, en auk þess að vera gamalt viðurnefni frá því að leið yfir meðlimi liðsins vísar titillinn einfaldlega í það að „liðið ætlar yfir.“ Konurnar sem skipa liðið æfa ýmsar íþróttir en aðallega sund hjá félaginu Ægir þríþraut.

Í fyrra synti annar hópur Ermasundið en ekki til baka vegna straumhörku. „Þegar við komum heim voru vinkonur okkar og vinir svo spennt að við ákváðum að endurtaka leikinn,“ sagði Sigrún, í samtali við mbl.is en hún var í báðum hópum og því vön aðstæðum.

Aðrir meðlimir Yfirliðsins eru þær Harpa Hrund Berndsen, Helga Sigurðardóttir, Corinna Hoffman og Sædís Rán Sveinsdóttir.

Til að styrkja dáðir Yfirliðsins má leggja pening inná eftirfarandi bankareikning en hann mun renna til AHC samtakanna, sem veita þeim stuðning sem kljást við þennan sjaldgæfa sjúkdóm.

Reikningur: 0303-26-7207 Kennitala: 030772-5719

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert