Fjaran iðaði af lífi

Fjöruferð við Sörlaskjól
Fjöruferð við Sörlaskjól mbl.is/Ómar Óskarsson

„Fátt er skemmtilegra en að fara á háfjöru, velta við steinum og róta í þangi. Það hreinlega iðar allt og spriklar af lífi ekki síst núna á sumrin,“ segir Snorri Sigurðsson líffræðingur sem leiddi í dag fjölskylduferð í fjöruna í Skerjafirði í boði Reykjavikurborgar.

Fjöruferðin var þáttur í fræðsluátaki um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík, en varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni í borgarlandinu er markmið í umhverfis- og auðlindastefnu borgarinnar.

Strandlengja Reykjavíkur er fjölbreytt að gerð og þar eru margvísleg búsvæði - stórgrýttar þangfjörur, sand- og malarfjörur, skjólsælar leirur og sjávarfitjar. Lífríki fjörunnar er afar fjölbreytt. Þar vaxa margs konar þörungategundir, brún-, græn- og rauðþörungar.

Mest er þörungafjölbreytnin í grýttu fjörunum. Áhugaverðar plöntur vaxa ofarlega í fjörunni, t.d. blálilja og fjörukál. Dýralífið er ekki síður fjölskrúðugt, sérstaklega fjölbreytt fána hryggleysingja - kuðungar og skeljar, krabbadýr, burstaormar, skrápdýr, hveldýr, möttuldýr, svampar o.fl. Fiskar finnast oft í fjöruborðinu, selir sjást oft á sundi og síðast en ekki síst er fuglalíf fjörunnar afar auðugt enda fæðuframboð fyrir fugla mikið.

Fræðsluviðburðurinn í dag bar heitið Fjaran iðar af lífi, og voru gestir hvattir til að taka þátt í leit og söfnun á lífverum í bakka og fötur, sem síðan voru skoðaðar í návígi og greindar. Krakkarnir létu ekki sitt eftir liggja heldur veltu við hverjum steini og fundu ýmislegt forvitnilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert