Íslensk framlög í sálræna aðstoð

Sigríður Þormar
Sigríður Þormar Mynd/Rauði Krossinn

„Þetta fólk er nýbúið að endurbyggja húsin sín eftir stríðið og nú situr það bara með föggur sínar í fanginu og segist ekki geta gert þetta aftur,“ segir Sigríður Þormar, sálfræðingur, sem er nýkomin heim frá Bosníu á vegum Rauða krossins þar sem hún kom á fót teymi sem veitir fórnarlömbum flóðanna sálræna aðstoð.

Sigríður gerði úttekt á þörfinni fyrir sálrænan stuðning, skipulagði aðgerðir og sá um þjálfun starfsmanna og sjálfboðaliða til að hjálpa fórnarlömbum flóðanna. „Við bjuggum til net fagfólks á þessu svæði og tókum það á fjögurra daga námskeið. Á næstu dögum munu þau þjálfa 220 sjálfboðaliða sem fara í heimsóknir og aðstoða fólk við að finna úrræðin sem þeim standa til boða.“

Framlögin frá Íslandi renna í verkefnið

Verkefnið er á vegum Rauða krossins á Íslandi og segir Sigríður að engin slík aðstoð sé þegar til staðar. Ef Rauði krossinn á Íslandi myndi ekki koma inn með fjármagn yrði þessu einfaldlega ekki sinnt,“ segir hún.

Hún segir áhersluna hingað til hafa verið lagða á grunnþarfirnar - mat, vatn, fatnað og húsaskjól. „Framlögin frá Rauða krossinum á Íslandi fara þó að einhverju leyti í það, en þetta er allt eyrnamerkt svo allir fjármunir renni ekki til þess sama. Vonin er þó að meirihlutinn renni í þetta.“

Þurfa að fara úr skólunum í september

Um 1.300 manns eru enn í fjöldahjálparskýlum auk þess sem margir hafast við í ónýtum húsum. Sigríður segir flesta þá sem eru ungir og hraustir vera farna úr skýlunum til þess að hjálpa til við uppbygginguna en marga þá sem eftir eru vera veikburða, fatlaða og aldraða. „Margir eru í skólum sem byrja aftur í september og eru því mjög kvíðnir og þeim líður illa. Þetta fólk veit ekkert hvert það á að fara.“

Hún segir marga þjást af kvíða og ótta við að hafa misst allt. „Flóðið var svo ólíkt mörgum öðrum í Evrópu sem oftast eru að hækka á nokkrum dögum. Þetta kom hins vegar nánast eins og flóðbylgja og fólkið hafði engan tíma til þess að forða sér og eigum sínum.“

Upplifa sig gleymda

Auk þess að ræða við fólk í fjöldahjálparskýlunum fór Sigríður í heimsóknir í heimahús. Hún segir alla hafa verið ánægða með heimsóknina „Þetta er mikið dreifbýlissamfélag og mikið af öldruðu fólki - flestir sem ég heimsótti eru yfir sextugt og hafa gengið í gegnum miklar hörmungar á lífsleiðinni. Svæðið var við fremstu víglínu í stríðinu og þau hafa nýlokið við uppbyggingu,“ segir hún.

„Það virtust margir upplifa sig gleymda. Þegar þetta var nýbúið að gerast sýndu þeim margir áhuga en nú virðist allt vera hljóðnað og húsin þó ennþá jafn ónýt.“

Verkefnið til fimm ára 

Sigríður segir áætlunina helst vera til fimm ára og vonar að kerfið muni virka sem eins konar hjól upplýsinga sem miðar að því að draga úr hræðslu og vanlíðan. Hennar verkefni er þó lokið þó hún muni áfram vinna sem sjálfboðaliði og aðrir sjálfboðaliðar úti geti haft samband við hana. „Það væri ákjósanlegt að fylgja þessu eftir en það fer eftir fjármagninu hversu virk ég get verið.“

Söfnun Rauða krossins fyrir fórnarlömb flóðanna á Balkanskaga stendur enn yfir. Hægt er að hringja í söfnunarsímana 904 1500, 904 2500 eða 904 5500 og þá dregst upphæð sem svarar síðustu fjóru tölustöfunum af símreikningi viðkomandi. Einnig er hægt að leggja inn á söfnunarreikning Rauða krossins á Ísland: 342-26-12 kt. 5302692649. 

Sjá fyrri umfjöllun mbl.is: Erfitt að sjá heimalandið þjást

Um 1.300 manns eru enn í fjöldahjálparskýlum.
Um 1.300 manns eru enn í fjöldahjálparskýlum. Mynd/Rauði Krossinn
Sigríður segir marga vera óttaslegna eftir að hafa misst heimili …
Sigríður segir marga vera óttaslegna eftir að hafa misst heimili sín Mynd/Rauði Krossinn
Margir sem eru nýbúnir að endurbyggja hús sín eftir stríðið …
Margir sem eru nýbúnir að endurbyggja hús sín eftir stríðið hafa misst þau aftur Mynd/Rauði Krossinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert