Gunnar í „súpergóðu formi“

Gunnar Nelson í bardaga.
Gunnar Nelson í bardaga. Ómar Óskarsson

„Gunnar er í slökun núna bara, hann er í súpergóðu formi,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars Nelsons bardagakappa en hann stígur inn í hringinn í kvöld til þess að mæta Zak Cummings í UFC bardaga. 

„Zak er góður á öllum sviðum, mjög sterkur, góður „wrestler“ og með þungar hendur. Hann er með þann eiginleika að geta stjórnarð bardaganum vegna stærðar sinnar og styrks,“ segir Haraldur um andstæðing Gunnars.

Hann bendir á að Zak er töluvert stærri og þyngri en Gunnar. Zak gengur inn í hringinn 90-93 kg á meðan Gunni er 79-80.  Hann er því 10-13 kg þyngri en Gunnar þegar hann stígur inn í búrið eftir því sem hann sjálfur segir. Honum tekst að bæta þessari þyngd á sig í nótt, sem er mjög mikið á stuttum tíma.“

„Gunnar er mjög snöggur og klárlega sneggri en Zak. Zak er sæmilega höggþungur en það geta allir í þessum flokki rotað menn í einu höggi, það er ekkert sem kemur á óvart. Zak hefur þó þann eiginleika að geta slökkt á glímueiginleikum andstæðinganna. Hann er sjálfur með bakgrunn úr „wrestli.“ Mín skoðun er sú að Gunnar er betri alhliða bardagamaður,“ segir Haraldur.

Æfingar Gunnars undanfarnar vikur hafa verið þær sömu og þær sem hann stundar venjulega. Haraldur segir að Gunnar aðlagi æfingarnar ekki að andstæðingunum heldur einbeiti sér að því að bæta sig sem alhliða bardagamann. „Gunnar er alltaf að reyna að bæta sig og þú þarft alltaf að vinna í því að bæta þig alveg sama hvernig andstæðingurinn er. Það getur líka margt breyst með stuttum fyrirvara, þú veist heldur ekki hverjum þú mætir fyrr en þú stígur inn í hringinn því það getur margt komið uppá,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert