Ný bylgja svikasímtala

Bréfið sem svikahrapparnir senda í nafni Microsoft.
Bréfið sem svikahrapparnir senda í nafni Microsoft.

Ekkert lát virðist vera á því að erlendir svikalómar hringi í Íslendinga, kynni sig sem starfsmenn Microsoft og tilkynni þeim að það sé vírus í tölvum þeirra. Næst segja þeir að til að útrýma vírusnum verði fólk að fara inn á ákveðna vefsíðu og hala niður vírusvarnarforriti. Það borgar sig þó ekki því í rauninni er um að ræða vírus sem gerir svikahröppunum kleift að ná stjórn tölvu viðkomandi og geta hrapparnir í kjölfarið valdið ýmis konar fjárhagslegu tjóni.

Sem dæmi má nefna að nái svindlarar þessi algeru valdi yfir tölvunum geta þeir m.a. komist yfir greiðslukortaupplýsingar, notendanöfn og lykilorð í heimabanka, fylgst með hegðun tölvueigendanna og selt óprúttnum fyrirtækjum upplýsingarnar auk þess að stela leyfislyklum að keyptum forritum. „Því miður er fjöldi dæma um að fólk hafi glatað háum fjárhæðum í svindli sem þessu. Þetta getur einnig valdið því að aðrir vírusar eigi í kjölfarið greiða leið inn í tölvuna. Tölvur hjá fólki hafa hrunið og þurft að setja þær upp að frá grunni um leið og öll gögn viðkomandi glatast,“ segir í fréttatilkynningu um málið frá Microsoft á Íslandi.

Ekki víst hversu margir hafa látið gabbast

Ekki er vitað fyrir víst hversu marga þeir hafa hringt í hér á landi eða hversu margir hafa látið gabbast. Svindlararnir notfæra sér að Microsoft nýtur trausts margra tölvunotenda og því líklegra að grandalaust fólk hali fyrrnefndum vírus niður ef viðkomandi segist hringja frá fyrirtækinu. Enginn virðist óhultur, en á meðal þeirra sem hafa fengið þessi símtöl eru íslenskir starfsmenn Microsoft. Microsoft vill taka fram að á skrifstofu þess í Reykjavík starfi eingöngu Íslendingar og fyrirtækið hringir aldrei í fólk nema það hafi sérstaklega óskað eftir því. Svindlararnir tala oftast ensku með þykkum hreim og er fólki ráðlagt að slíta þessum símtölum strax.

Þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum svindlurum er ráðlagt að láta þjónustuaðila yfirfara tölvur sínar umsvifalaust, jafnvel þótt þær virðist í stakasta lagi.

Talið er að hátt hlutfall tölvuvæddra íbúa hér og það hversu auðvelt er fyrir óprúttna einstaklinga að komast yfir símanúmer sé helsta ástæða þess að svikahrapparnir beini sjónum sínum að Íslandi.

Microsoft hvetur fólk því til að vera á varðbergi gagnvart slíkum símtölum.

Láti af hendi persónuupplýsingar í skiptum fyrir vinning

Þá hefur Microsoft á Íslandi einnig borist ábendingar um að óprúttnir einstaklingar sendi nú tölvupóst þar sem fólki er tilkynnt um að það hafi unnið til verðlauna. Í póstinum, sem er látinn líta út fyrir að vera frá Microsoft í Bretlandi, er viðtakanda sagt að hann hafi unnið þriðju verðlaun í tölvupóstútdrætti. Verðlaunin eru sögð vera 450.000 pund, jafnvirði tæplega 88 milljóna króna, og er viðtakandi beðinn um ýmsar persónuupplýsingar til að hægt sé að greiða út vinninginn.

Ekki er um raunverulegan vinning að ræða heldur eru þarna svikalómar á ferð. Þeim sem kunna að hafa fengið póst með þessum skilaboðum, eða öðrum álíka, er bent á að svara ekki og alls ekki að gefa upp persónulegar upplýsingar, s.s. tölvupóstfang, heimilisfang eða símanúmer.

Tölvupóstur með þessum skilaboðum kemur ekki frá Microsoft enda stendur fyrirtækið ekki fyrir neinu happdrætti, segir í tilkynningu Microsoft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert