Látinn maður í makaleit

Hér má sjá dánartilkynningu um manninn sem Lísa fékk senda …
Hér má sjá dánartilkynningu um manninn sem Lísa fékk senda mynd af. Ljósmynd/mbl.is

Lísa Björk Ingólfsdóttir, viðskiptafræðingur, kannaði nýverið einkamálasíðuna Makaleit.is. Á fyrsta sólarhringnum höfðu nokkrir samband án þess þó að vita nokkuð um Lísu. Hún átti gott samtal við mann sem sagðist vera hlýr og góður raunvísindakennari í framhaldsskóla og hefði samsvarandi háskólamenntun.

Lísa skoðaði betur mynd sem maðurinn hafði sent henni og komst að heldur áhugaverðum niðurstöðum. Maðurinn sem hún ræddi við hafði sent mynd af bandarískum karlmanni sem lést árið 2012. Maðurinn hét Philip Michael Mason og var efnaverkfræðingur. Hann tók meðal annars þátt í hönnun amerísku sprengjuvélarinnar B1. Þetta kemur fram í dánartilkynningu um hann. 

Hún segir að viðkomandi hafi ekki viljað gefa upp neinar persónuupplýsingar heldur vildi einungis spjalla á netinu.

Lísa telur að gild ástæða sé nú til að loka síðum sem þessari og taka þær úr umferð þar sem komið hefur í ljós að þær séu notaðar í slæmum tilgangi. „Saklaust fólk fer þarna inn og telur sig geta fundið áhugaverða einstaklinga. En ef upplýsingar eru gefnar upp getur þetta reynst mjög hættulegt fyrir viðkomandi,“ segir Lísa.

„Hvernig hefði þetta endað ef ég hefði virkilega verið að leita eftir maka á þessum vef, gjörsamlega grunlaus um hvað getur verið þarna í gangi?“ spyr Lísa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert