Þrýstingur á báða deiluaðila

Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.
Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs. mbl.is/Kristinn

Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, segir að Íslendingar geti lagt sitt af mörkum til að draga úr átökum á Gaza-ströndinni með því að taka þátt í alþjóðlegum þrýstingi á báða aðila, Hamas-samtökin og ríkisstjórn Ísraels, til þess að koma samningaviðræðum af stað.

„Allir vita að þessi deila verður ekki leyst með hernaði. Palestínumenn gera kröfu um sjálfstætt ríki og Ísraelsmenn krefjast öryggis. Hvorug krafan verður leyst með valdi eða hernaðarátökum, það höfum við upplifað margoft. Slíkt gerir ástandið aðeins verra,“ segir Bondevik sem stýrir sjálfstæðri stofnun, Oslosenteret, og vinnur að lýðræðisþróun og fleiri mannréttindaverkefnum í nokkrum Afríkuríkjum og víðar.

Kjell Magne Bondevik og eiginkona hans, Bjørg Bondevik, komu í stutta heimsókn hingað til lands með vinahjónum og notaði hann tækifærið til að hitta nokkra gamla samstarfsmenn úr pólitíkinni. Þau hjónin heimsóttu meðal annars Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, og Ástríði Thorarensen eiginkonu hans, enda segir Bondevik að þeir hafi starfað vel saman á þeim tíma sem þeir voru báðir forsætisráðherrar. Bendir hann á að hann hafi verið forsætisráðherra í sjö ár og Davíð verið forsætisráðherra Íslands meginhluta þess tíma og raunar í tvöfalt lengri tíma. Þá hitti hann Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Hún er formaður fulltrúaráðs Oslosenteret og þau hittast árlega á fundum ráðsins.

Norðmenn taka þátt í friðarstarfi

Bondevik segir í samtali við Morgunblaðið að Norðmenn hafi aðkomu að deilunum í Mið-Austurlöndum. Nefnir að Norðmenn séu í forystu fyrir ráði sem skipuleggur efnahagslegan stuðning við Palestínumenn og sett var á fót 1993, í tengslum við Oslóar-samkomulag Ísraela og Palestínumanna. Því hafi utanríkisráðherra Norðmanna, Børge Brende, verið á ferðalögum um Mið-Austurlönd og tekið þátt í viðleitni til að koma á vopnahléi.

Sjálfur hefur Bondevik sambönd í Mið-Austurlöndum og hefur farið á eigin vegum til ríkjanna og rætt við forystumenn. Tekur hann fram að semja þurfi um ýmis erfið mál, meðal annars um stöðu Jerúsalem, flóttamannavandann, landnemabyggðir og landamæri ríkjanna.

Ástandið í Úkraínu ber einnig á góma en Bondevik segir að Norðmenn hafi þar einnig hlutverk, sem nágranni Rússa. „Rússar hafa mikil áhrif á rússneskumælandi minnihlutann í Úkraínu. Deilan getur orðið hættuleg ef þeir styðja rússneska minnihlutann einhliða. Norðmenn geta notað stöðu sína sem nágrannaríki Rússlands til að reyna að hafa áhrif á þá,“ segir Bondevik.

Hjálpa til við þróun lýðræðis

Meginverkefni Oslóarmiðstöðvarinnar er að hjálpa til við þróun lýðræðis í ríkjum sem eru skammt á veg komin í þeim efnum. Starfsmenn hennar vinna gjarnan með öðrum alþjóðlegum stofnunum og pólitískum stofnunum í ríkjunum, svo sem þingum, ríkisstjórnum og stjórnmálaflokkum, til að reyna að fá stofnanirnar til að þjóna hlutverki sínu.

Bondevik stofnaði Oslosenteret fljótlega eftir að hann hætti í stjórnmálum og er ánægður með starfið. Miðstöðin hefur starfað frá árinu 2006. Megnið af þeim tíma hefur hún unnið að verkefnum í Kenía. „Höfum verið að hjálpa til við að láta pólitíska kerfið virka. Við höfum lent í vandamálum í ferlinu en komist í gegnum þau.“ Meðal annars hefur miðstöðin tekið þátt í vinnu við að semja lög um kosningar og starfsemi stjórnmálaflokka.

Stærstu verkefnin eru þó í Sómalíu, landi sem er illa leikið eftir borgarastyrjöld. „Sómalía telst enn ekki lýðræðisríki en það er á leiðinni að verða það. Það hefur fengið forseta, ríkisstjórn, þing og stjórnmálaflokka. Við höfum hjálpað til við að koma þessu á. Eftir tvö ár verða þingkosningar þar sem kosið verður á milli stjórnmálaflokka en hingað til hafa kosningar verið á grundvelli ættflokka,“ segir Bondevik.

Oslosenteret er með lýðræðisverkefni í sex löndum og verkefni sem snúa að öðrum mannréttindum og trúfrelsi í ríkjum Afríku og Asíu.

Nefnir hann að verið sé að koma upp vettvangi fyrir samræður ungs fólks í nokkrum ríkjum. Þá aðstoðar miðstöðin við kosningar í Afganistan, svo fleiri verkefni séu nefnd.

Miðstöðin er með aðalskrifstofur í Osló og auk verkefna víða um heim hefur hún beitt sér fyrir fundum og ráðstefnum um viðfangsefni sín og er þannig orðinn vettvangur sem litið er til þegar rætt er um lýðræðisþróun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert