Lánuðu námsmönnum 16,8 milljarða

mbl.is/Hjörtur

Heildarútlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) fyrir skólaárið 2012-2013 námu 16,8 milljörðum króna, samkvæmt ársskýrslu. Greiðendur námslána voru 33.321 og alls fengu 12.236 námsmenn afgreitt námslán vegna skólaársins.

Í ársskýrslunni segir frá aukinni nýtingu á þjónustu LÍN á árinu 2013, en í heildina voru 77.830 símtöl skráð hjá sjóðnum á árinu, 71.049 tölvupóstar og skjöl komu inn til afgreiðslu og innlitum á www.lin.is fjölgaði um 7,8% frá árinu 2012 og voru um 4.700 á dag.
 
Auk hefðbundinna upplýsinga um rekstur og þjónustu sjóðsins er fjallað um áhættugreiningu hans og sérstöðu lánasafnsins. Samkvæmt nýlegri skýrslu Summu Ráðgjafar, um fjárhagslegar áhættur LÍN, hefur lántökum hjá LÍN fjölgað töluvert, námstími lengst, heildarfjárhæð lána hækkað og endurgreiðslutími lengst. Verulegur opinber stuðningur felst í námslánakerfinu vegna vaxtaafsláttar og afskrifta lána, en hærri heildarfjárhæð námslána dregur almennt úr líkum á fullum endurheimtum. Þessi stuðningur er metinn um 37% fyrir heildarlánasafn sjóðsins en fer hækkandi og var rúm 47% af útlánum ársins 2013.

Við þetta bætist óvissa um hve mikil endurgreiðsluáhættan er, þar sem almennt var fallið frá skilyrði um sjálfskuldaábyrgð á námslánum á árinu 2009, en skortur á tryggingum getur bitnað á framtíðarendurheimtum. Nú eru 6% af lánasafninu án ábyrgða og eru þegar komnar fram vísbendingar um að hlutfall vanskila í þessum hópi sé hærra en vegna lána með ábyrgð, segir í fréttatilkynningu frá LÍN vegna ársskýrslunnar.

Dæmi um yfir 30 milljón króna skuld

Meðallán námsmanna, sem enn eru í námi, námu 4 milljónum kr. í lok árs 2013 en 12,5% þeirra sem eru enn í námi skulda yfir 12,5 milljónir kr. Dæmi eru um skuldir yfir 30 milljónir kr., en námsmaður með svo háa skuld þyrfti að hafa um 23 milljónir kr. í árstekjur frá námslokum til að auðnast að greiða lánin fyrir 67 ára aldur. Til samanburðar þyrfti námsmaður sem lýkur námi um þrítugt með 7,5 milljóna kr. námslánaskuld að hafa 5,5 milljónir kr. í árstekjur til að greiða upp námslán sín fyrir 67 ára aldur.

Í lok árs 2013 var nafnvirði útlána LÍN 202 milljarðar kr. Útlán hafa vaxið um 73% frá árinu 2008. Núvirði lánanna er nokkuð lægra en nafnvirði þeirra eða um 129 milljarðar kr. sem nemur 64% nafnvirðisins. Það sýnir jafnframt innbyggðan opinberan stuðning við námsmenn miðað við fyrirkomulag námslána. Afföll námslána aukast í réttu hlutfalli við upphæð lánanna og lengd endurgreiðslutímans. Þannig er t.d. áætlað að tæplega helmings eftirgjöf felist í námsláni á bilinu 7,5–10 milljónir kr.

Að óbreyttu má búast við að afskriftir fari hækkandi og að ríkið þurfi miðað við sömu þróun að leggja meiri fjármuni til LÍN á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert