Karlar manna flestar stöður

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/ Ómar Óskarsson

Sveitarfélög eru nú öll búin að manna stöðu sveitar- og bæjarstjóra eftir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fóru 31. maí síðastliðinn. Þegar kosið var til sveitarstjórna árið 2010 voru sveitarfélög landsins 76 talsins en nú eru þau hins vegar 74.

Munu nú alls 56 karlar gegna stöðu sveitar- og bæjarstjóra á móti 18 konum.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að hlutfallslega fleiri konur séu nú kjörnar sveitarstjórnarfulltrúar en fyrir fjórum árum. „Það stefnir þó í að færri konur verði sveitar- og bæjarstjórar nú en fyrir fjórum árum síðan,“ segir Halldór.

Spurður út í hugsanlega skýringu á þessu svarar Halldór: „Í raun hef ég enga skýringu á þessu. Ég hefði haldið að eftir því sem fleiri konur eru kjörnir fulltrúar yrðu fleiri konur ráðnar. Það virðist hins vegar ekkert samhengi vera þar á milli.“

Gegna karlar stöðunni lengur?

Að sögn Halldórs mun Samband íslenskra sveitarfélaga fara betur yfir málið og skoða niðurstöðuna.

„Ég hafði orð á þessu í ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrir nokkrum árum. Talaði ég þá um hlutfall kjörinna fulltrúa og að konur væru að sækja í sig veðrið en það er ekki að gerast þegar kemur að stöðum sveitar- og bæjarstjóra,“ segir hann og bætir við að vert væri að skoða hvort konur séu líklegri til að gegna þessum störfum í skemmri tíma en karlar.

Þegar tíu stærstu sveitarfélög landsins eru skoðuð má sjá að konur, sem gegna munu stöðu sveitar- eða bæjarstjóra eftir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fóru fyrr á þessu ári, eru í miklum minnihluta. Er fjöldi kvenna tveir á móti átta.

Átta karlar og tvær konur

Karlar munu skipa embætti borgarstjóra í Reykjavík, bæjarstjóra í Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Garðabæ, Mosfellsbæ, Fjarðabyggð og á Akureyri.

Konur skipa stöðu framkvæmdastjóra sveitarfélagsins Árborgar og stöðu bæjarstjóra Akraness.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert