Smíða trékindur í tilefni af bæjarhátíð

Fimmtíu trékindur standa á víð og dreif í Mosfellsbæ og meðfram Vesturlandsveginum um þessar mundir og vekja athygli á því að bæjarhátíð Mosfellsbæjar beri yfirskriftina „með lopa skal land byggja“ í ár. Kindurnar eru smíðaðar af þroskahömluðum starfsmönnum handverkstæðisins Ásgarðs og leiðbeinendum þeirra.

„Núna erum við að smíða fleiri kindur sem eiga að labba í Álafosskvosina og vera í lopapeysum. Það verða svolítið óvenjulegar kindur. Það er lögð áhersla á lopann á bæjarhátíð í ár því upphaflega er þetta ullarbær. Mosfellsbær byggðist upp í kringum verksmiðjuna sem er hérna beint á móti okkur,“ segir Heimir Þór Tryggvason, forstöðumaður í Ásgarði.

Vinnustaðurinn aðlagar sig að starfsfólkinu

Í Ásgarði sé lögð sérstök áhersla á hinn manneskjulega þátt vinnunar.

„Það felur í fyrsta lagi í sér að Ásgarður aðlagar sig að þeim einstakling sem kemur til vinnu, hann þarf ekki að aðlaga sig að Ásgarði. Við finnum styrkleika og veikleika hvers einstaklings og vinnum eftir þeim,“ segir Heimir. „Svo ef sólin skín og menn eru óánægðir í vinnunni leggjum við einfaldlega frá okkur verkfærin og förum í fjöruferð eða náum í laufblöð eða ber fyrir vinnuna.“

Ásgarður handverkstæði hefur verið við störf síðan 1993. Þar sem um sjálfseignarstofnun er að ræða þarf verkstæðið sérstakt leyfi til að starfa með þroskahömluðum, en Ásgarður hefur hlotið starfsleyfi frá Velferðarráðuneyti sem verndaður vinnustaður. 

„Þessi vinnustaður er fyrir þá sem hafa með fötlun að gera, fyrir þá sem vilja ekki fara á hinn fræga, almenna vinnumarkað. Hér seljum við okkar framleiðslu og allur ágóði fer aftur til starfsmanna Ásgarðs, en stjórnin fær aldrei neitt greitt. Menn eru stoltir af því að vera starfsmenn Ásgarðs.“

Mosfellsbær býður í „ullarpartý“

Bæjarhátíð í Mosfellsbæ ber heitið Í túninu heima og er haldin í ellefta sinn í ár og stendur 29.-31. ágúst. Nýjungar í ár felast í sérstöku ullarþema, enda ber hátíðin yfirskriftina „með lopa skal land byggja,“ eins og fram hefur komið. 

Gestir eru hvattir til að mæta klæddir sinni fínustu lopapeysu af þessu tilefni, en bærinn býður í eitt allsherjar „ullarpartý,“ samkvæmt heimildum mbl.is. 

„Grunnhugmyndin er þessi ullarsaga bæjarins. Við erum búin að fá Álafossbúðina með okkur í lið í þetta ásamt fleirum. Svo er verið að hanna sérstaka peysu með Mosfellsbæjarmerkinu. Það er svo skemmtilegt þegar maður sér myndir af fólki koma saman og svo ótrúlega margir eru í lopapeysum. Svo eru trékindurnar einmitt partur af þessu líka,“ segir Aldís Stefánsdóttir, forstöðumaður þjónustu- og upplýsingamála hjá Mosfellsbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert