„Eitt hættulegasta eldfjall Íslands“

Frá Vatnajökli.
Frá Vatnajökli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Bárðarbunga í Vatnajökli er stór og öflug megineldstöð. Er hún jafnframt víðáttumesta eldstöð landsins, talin vera nálægt 200 km. löng og allt að 25 km. breið. Eldstöðin er hulin ís og í henni leynist gríðarmikil jökulfyllt askja. Önnur megineldstöð er í kerfinu, það er Hamarinn. Vegna þess hve fjarri eldstöðin var byggðu bóli þá var fremur lítið var vitað um Bárðarbungu lengi vel en smámsaman varð mönnum ljóst að undir þessari miklu íshellu í norðvesturjaðri Vatnajökuls leyndist eitt öflugasta og hættulegasta eldfjall Íslands.“

Þetta kemur fram á vefsíðunni Eldgos.is en eins og fram hefur komið hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Húsavík og Hvolsvelli lýst yfir óvissustigi vegna jarðhræringa í Bárðarbungu. Viðvarandi skjálftahrina hefur verið hefur verið á svæðinu frá því í nótt. „Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningu frá embættinu.

Fram kemur á Eldgos.is, sem haldið er úti af Óskari Haraldssyni rekstrarfræðingi og áhugamanni um jarðfræði, að Askjan í Bárðarbungu sé um 70 ferkílómetrar. Allt að 10 kílómetra breið og um 700 metra djúp. Umhverfis hana rísi barmarnir í allt að 1850 metra hæð en botninn sé víðast í um 1100 metra hæð. Askjan sé ennfremur algjörlega jökulfyllt.

„Mörg gjóskulög sem upphaflega voru eignuð öðrum eldstöðvakerfum í Vatnajökli hafa við síðari tíma rannsóknir reynst vera úr Bárðarbungu.  Einnig leiddi Gjálpargosið 1996 í ljós að samspil getur átt sér stað milli Bárðarbungu og Grímsvatna.  Þá hleypti kröftugur jarðskjálfti í Bárðarbungu, um 5 á Richter, af stað gosi á milli eldstöðvanna en kvikan var ættuð úr Grímsvatnakerfinu. Mikil jarðskjálftavirkni hefur lengi verið viðvarandi í Bárðarbungu án þess að til goss hafi komið.  Skjálftarnir staðfesta að þarna er bráðlifandi eldfjall.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert