Með nammi allt í kringum sig

Mæðginin Vífill Atlason og Harpa Hreinsdóttir.
Mæðginin Vífill Atlason og Harpa Hreinsdóttir. mbl.is/Eggert

Þegar Vífill Atlason, 23 ára gamall sagnfræðinemi, staðhæfði við móður sína, Hörpu Hreinsdóttur framhaldsskólakennara, að hann væri haldinn áunnum athyglisbresti var hann að tala í hálfkæringi. Og þó? „Röskunin“ lýsir sér þannig að Vífill á erfitt með að sökkva sér niður í ákveðin viðfangsefni vegna þess að hann er orðinn háður því að brúka snjallsíma og fartölvur. Brestur kemur reglulega í athyglina. Hér er Vífill örugglega ekki einn á báti.

Ertu nokkuð með ofnæmi fyrir köttum?“ spyr Harpa Hreinsdóttir þegar ég sting við stafni á heimili hennar á Akranesi. Ekki aldeilis. Tveir kettir eru á heimilinu, Jósefína lætur ekki sjá sig en sérlegur málfarsköttur, Eiður Svanberg, nuddar sér glaðlega utan í gestinn. Kemur á hæla okkur inn í eldhús. Ætlar greinilega ekki að missa af neinu, blessaður.

Tilefni heimsóknarinnar er grein sem Harpa ritaði í Kvennablaðið á dögunum undir yfirskriftinni „Áunninn athyglisbrestur“. Greinin hefst á þessum orðum: „Þegar yngri sonurinn hóf háskólanám lýsti hann því blákalt yfir að hann væri haldinn áunnum athyglisbresti. Ég efast um að til sé kóðanúmer fyrir þessa röskun í ICD-10 eða DSM 5 en drengurinn útskýrði röskunina á þá leið að hann væri orðinn svo háður því að brúka snjallsíma og fartölvur að hann gæti ekki lesið langa texta. Sem þarf þá maður stundar háskólanám.“

Þegar ég hringdi í Hörpu til að ámálga viðtal tók hún strax fram að þetta væru bara vangaveltur, hún væri enginn sérfræðingur í téðri röskun, ef röskun má þá kalla. „Ég skrifaði þessa grein meira í gamni en alvöru,“ segir hún. „Hef meira að segja gantast með að kvillann megi skilgreina sem ADSL.“

En öllu gamni fylgir alvara og eflaust geta margir speglað sig í syni Hörpu, Vífli Atlasyni, sem nú slæst einmitt í hópinn. „Ég setti þetta fram í hálfkæringi,“ viðurkennir Vífill, sem er 23 ára. „Lít ekki svo á að þetta sé einhver fötlun. Samt er ég ekki í vafa um að þessi áunni athyglisbrestur hefur háð mér, ekki síst eftir að ég hóf háskólanám.“

Las töluvert sem barn

Vífill talar um áunninn athyglisbrest enda bar ekki á kvillanum meðan hann var yngri. Hann las töluvert sem barn, var um árabil áskrifandi að Andrési önd, og minnist þess ekki að hafa átt erfitt með að einbeita sér eða sökkva sér niður í lengri texta. „Ég var ósköp venjulegur strákur, las, horfði á sjónvarp, átti mína Playstation-tölvu og fótboltaleiki,“ segir hann.

Harpa segir rannsóknir staðfesta að mikilvægt sé að börn lesi mikið, sérstaklega á aldrinum ellefu til fjórtán ára. „Nái þau ekki miklum lestri á þeim aldri getur verið erfitt að þjálfa hann upp aftur,“ segir hún og bætir við að ekki skipti máli hverskonar bókmenntir séu lesnar. Morgan Kane geri sama gagn og Halldór Laxness. Líka Tinni.

Á unglingsárum dró úr lestrinum hjá Vífli, einkum eftir að hann hóf nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hann vann mikið með skólanum, á kvöldin og um helgar, og fyrir vikið var tími til heimanáms takmarkaður. Vífill viðurkennir raunar að hann hafi lokið stúdentsprófi án þess að lesa eina einustu námsbók spjaldanna á milli. Gluggaði í sumar en treysti fyrst og síðast á tímasókn og glósur.

„Vífill er mjög flinkur að tína upp upplýsingar,“ segir móðir hans. „Við mæðginin erum alltaf saman í liði þegar fjölskyldan spilar Trivial Pursuit um jólin og erum ósigrandi. Hann veit allt mögulegt, þótt hann liggi ekki yfir bókum.“

Spurður hvert hann sæki upplýsingar nefnir Vífill strax netið. Það sé gósenland fróðleiksþyrstra. Þar sé líka búið að þjappa upplýsingum saman og gera þær aðgengilegri en í bókum. Yngra fólki sé í lófa lagið að færa sér þetta í nyt. „Ég er örugglega ekki eini maðurinn á Íslandi sem hefur lokið stúdentsprófi án þess að lesa eina einustu námsbók frá upphafi til enda,“ segir hann.

Þegar Vífill var sautján eða átján ára eignaðist hann sína fyrstu fartölvu. Það var vendipunktur. „Fartölvan varð mjög fljótt stór þáttur í mínu lífi og tók alltaf meiri og meiri tíma. Snjallsíminn kom síðar. Ég vandi mig ekki á hann fyrr en fyrir tveimur árum eða svo.“

Hann segir áreitið svakalegt, Facebook, Snapchat, Instagram, Twitter og hvað þetta allt heitir, og erfitt sé að einbeita sér lengi að því sama, svo sem að lesa blað eða bók. Síminn eða tölvan grípi stöðugt inn í og beini athyglinni annað.

Margt breyttist á fjórum árum

Harpa er íslenskufræðingur að mennt og hefur starfað sem framhaldsskólakennari frá árinu 1986, lengst af við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún var reyndar frá vinnu í fjögur ár vegna veikinda, frá 2009 til 2013. Er nú í 25% starfi. Þegar hún sneri aftur fann Harpa fljótt að margt hafði breyst á þessum tíma.

„Þegar ég var að fara yfir kennsluáætlanir til að setja mig inn í kennsluna aftur rakst ég víða á skrýtnar klausur þess efnis að farsímanotkun væri bönnuð í kennslustundum nema í verkefnum undir stjórn kennara. Mig minnti ekki að þetta hefði verið vandamál en áttaði mig fljótt á því að fyrir þessum nýju reglum var gild ástæða. Það getur verið virkilega erfitt að fá nemendur til að leggja farsímann frá sér. Helst stinga þeir honum bara undir töskuna sína á borðinu. Þykir líklega betra að vita af honum í seilingarfjarlægð,“ segir Harpa.

Nú kennir Harpa prjón sem valfag og þar má hafa snjallsímann uppi við. „Ég leyfi ýmislegt í þessum tímum, eins og fartölvur, að hlusta á tónlist, hafa síma og tala saman. Krakkarnir nýta sér þetta allt, nema helst símann. Láta hann að mestu vera. Ef til vill er það vegna þess að það er ekki bannað?“

Hún hlær.

Harpa aðhyllist svokallaða vendikennslu, það er að nemendur undirbúi sig vel heima og vinni svo verkefni í tímum. Það hefur vakið athygli hennar, eftir að hún sneri aftur, að nemendur er bjargarlausari en áður. Þeir virðast eiga erfiðara með að finna efni á Google og YouTube upp á eigin spýtur, svo dæmi sé tekið. „Nemendur eiga erfitt með allt sem er utan rammans. Læra bara það sem þeir þurfa. Því fullkomnara sem Google verður þeim mun erfiðara eiga krakkarnir með að leita,“ segir hún.

Vífill segir þetta í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Fólk hafi tilhneigingu til að læra bara það sem það kemst upp með þegar tæki eru annars vegar. Flestir þekki þetta til dæmis í sambandi við bíla.

Viðtalið má lesa í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert