Frestaði skurðaðgerð og flaug norður

Ómar Ragnarsson lætur ekkert stöðva sig þegar kemur að því …
Ómar Ragnarsson lætur ekkert stöðva sig þegar kemur að því að ljósmynda eldgos. Eggert Jóhannesson

Ómar Ragnarsson lætur ekkert stöðva sig þegar kemur að því að ljósmynda umbrotin í Bárðarbungu, en Ómar kaus að fresta skurðaðgerð, sem hann átti að fara í á morgun, til að fljúga norður í dag. 

„Þetta er nú lítilsháttar aðgerð. Það þurfti bara að snyrta annað nýrað í mér. Ég hefði verið svæfður og átti að koma heim samdægurs,“ segir Ómar, en að sögn Ómars átti að tengja framhjá nýrnasteini sem er of lítill til þess að brjóta.

Hann segir að eldgosin hafi áður verið í forgangi hjá sér. „Sem dæmi þá stökk ég einu sinni af sviðinu í miðjum klíðum á skemmtun á Skagaströnd og lét mig hverfa úr húsinu þegar gaus í Kröflu árið 1981, að mig minnir,“ segir Ómar. 

„Heilsulaus maður fer náttúrulega ekki að fljúga neitt. En þetta er nú mjög lítið sem hrjáir mig og hefði ekki komið í ljós nema vegna þess að ég fer í mjög nákvæmar læknisskoðanir tvisvar á ári vegna atvinnuflugmannsréttinda. Ég bölvaði þeim rúmlega 40 þúsund krónum sem ég hef borgað fyrir skoðunina en ég geri það ekki lengur,“ segir Ómar og hlær.

Aðgerðinni var frestað um einn mánuð. „Það voru bara tveir dagar sem ég vildi helst ekki verja á skurðarborðinu. Annars vegar þegar ég á að syngja með Ragga Bjarna í Hörpu og hins vegar á degi íslenskrar náttúru. Að öðru leyti velur maður sér ekki daga og leggst bara undir hnífinn. Þetta er ekki til fyrirmyndar hjá mér,“ segir Ómar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert