Gos ylli flóði í Jökulsá á Fjöllum

Kæmi til eldgoss á svæðinu í kringum Bárðarbungu er um að ræða sprungugos undir 150-600 m þykkum jökli og bræðsluvatn myndi renna jafnóðum undan jöklinum og valda flóði í Jökulsá á Fjöllum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá vatnavárhópi Veðurstofu Íslands. 

Líklegt er að ferðatími vatnsins frá gosstað að jökuljaðri væri 1-1,5 klukkustundir og líkleg stærð hlaups væri á bilinu 5.000-20.000 rúmmetrar á sekúndu. Frá gosstað niður að Herðubreiðarlindum væri líklegur ferðatími 4,5 klukkustundir, niður að brúnni á Jökulsá við Grímsstaði 7 klukkustundir og niður að Ásbyrgi um 9 klukkustundir. 

Í tilkynningunni segir að hlaup í Jökulsá á Fjöllum hafa verið mjög mismunandi að stærð. Hafa þau verið allt frá um 200 þúsund rúmmetrar á sekúndu niður í minniháttar hlaup. Eins og staðan er núna eru litlar líkur á gosi sem myndi leiða til hlaups af stærri gerðinni. 

Þrjár aldir eru liðnar frá umtalsverðu hlaupi í ánni. Í sögulegu samhengi eru nefnd dæmi um hlaup í ánni á 15., 17. og 18. öld sem ollu tjóni í Kelduhverfi og Öxarfirði, og eru sum hlaupin sögð hafa náð vestur í Víkingavatn í Kelduhverfi. Nú sé hins vegar landslag á söndunum inn af Axarfirði breytt eftir Kröfluelda á árunum 1975-1984 og því líkur á að hlaup sem kæmi í dag myndi fylla í flestar lægðir sem eru á sandinum, til dæmis Skjálftavatn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert