Skjálftinn vegna sigs í öskjunni

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. mbl.is/Árni Sæberg

Veðurstofa Íslands hefur staðfest að skjálfti af stærðinni 4 hafi orðið í Bárðarbungu í dag. Þetta er í annað skipti síðan hrinan hófst sem svo stór skjálfti mælist. Tilkynning hefur borist um að skjálftinn hafi fundist í Nýjadal. Skjálftarnir í dag eru í sjálfum sigkatlinum og líklega til marks um að askjan sé að síga, að sögn sérfræðings hjá Veðurstofunni.

„Við túlkum það svo að þessir sterku skjálftar í dag séu fyrst og fremst tengdir hugsanlegu sigi í sjálfri öskjunni. Það hefur orðið breyting á þrýstingi á svæðinu og kvika er á hreyfingu og það sem við sjáum núna er líklega askjan að laga sig að þessum breytingum,“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofu Íslands.

Síðustu 48 klukkustundir hafa verið alls 8 skjálftar af stærðinni 3 eða stærri, þar af fjórir frá því á miðnætti. Sá stærsti kl. 10:58 í dag, um 4,8 km NA af Bárðarbungu, en auk þess varð 3,0 stiga skjálfti í nótt, annar af stærðinni 3,7 um klukkan hálfellefu og loks 3,4 stiga skjálfti um eittleytið.

Sara segir að þótt skjálftarnir séu skráðir á grynnra dýpi en flestir til þessa, eða 2–5 km, séu þeir á sama bili og atburðirnir til þessa og enn séu engin merki um að kvika sé að hreyfast upp á við í átt að yfirborðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert