Almannavarnafundur á Austurlandi

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. mbl.is/Árni Sæberg

Fundur viðbragðs- og hagsmunaaðila stendur nú yfir á Egilsstöðum. Fulltrúar almannavarna, lögreglu og vísindamanna eru á fundinum og ræða stöðuna á áhrifasvæði hugsanlegs flóðs og aðgerðir síðustu daga. Þar eru einnig fulltrúar frá sveitarfélögum, bændum, heilbrigðiskerfinu o.fl.

Í morgun sat almannavarnadeild fjarfund með yfirvöldum almannavarna á Norðurlöndum. Voru þeir upplýstir um stöðuna mála og fá í framhaldinu reglulega upplýsingar um framvinduna, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum. 

Vatnamælingamenn við störf á lokaða svæðinu

Í upplýsingum Veðurstofu Íslands kl. 06:50 í morgun kom fram að skjálftavirkni við Bárðarbungu og Dyngjujökul er enn mikil. Þó dró nokkuð úr henni upp úr kl. tvö í nótt. Hátt í fjögur hundruð skjálftar hafa mælst sjálfvirkt síðan á miðnætti og sem fyrr er langstærstur hluti þeirra staðsettur austan Bárðarbungu, við kvikuinnskotið. Flestir skjálftarnir sem farið hefur verið yfir eru á miklu dýpi, 8-12 km, en þó hafa örfáir grynnri verið staðsettir upp á tæplega 4 km dýpi, allra austast/nyrst.

Skjálftavirknin virðist að hluta hafa færst lítið eitt til norðurs, óverulega þó. Rétt fyrir miðnætti í gærkvöld, klukkan 23:50:22, varð (lágtíðni)skjálfti við Bárðarbungu, við í suðaustanverðri öskjunni og mældist hann 4,7 stig. Einn til viðbótar náði stærðinni 3. Aðrir hafa verið litlir.

Vísindamenn frá Veðurstofunni hafa verið  á ferð á jöklinum í gær, annars vegar við Hamarinn og hins vegar í nánd við Dyngjujökul. Tilgangur ferðarinnar var að koma fyrir jarðskjálftamælum og GPS stöðvum. Þá hafa vatnamælingamenn verið við störf á lokaða svæðinu. 

Varafl skoðað vegna svæða sem gætu orðið straumlaus

Í gær var haldinn fundur með Landmælingum Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun, Þjóðskrá og Landgræðslunni  til að samhæfa aðgerðir. Þá var fundur viðbragðs- og hagsmunaaðila haldinn á Húsavík. Þar voru fulltrúar almannavarna, lögreglu á Húsavík og vísindamanna og  gerðu þeir grein fyrir stöðunni á áhrifasvæði hugsanlegs flóðs og fóru yfir aðgerðir síðustu daga. Fundinn sátu einnig fulltrúar frá sveitarfélögum, bændum, heilbrigðiskerfinu og fleirum. Í gærkvöldi var einnig haldinn íbúafundur í Öxarfirði Öxarfjarðarskóla.

Viðbragðsáætlanir Landsnets vegna eldgosa og náttúruhamfara hafa verið yfirfarnar og búið að gera ráðstafanir vegna varafls á þeim svæðum sem gætu orðið straumlaus ef flutningslínur gefa sig, komi til eldsumbrota í norðanverðum Vatnajökli. Hjá Landsneti eru það helst flutningsvirkin, eða línurnar sem geta skemmst í slíkum hamförum sem gætu orðið í kjölfar eldgoss.

Á hættusvæðinu á Norðausturlandi er annars vegar um að ræða Byggðalínuna og hins vegar flutningslínur í svæðiskerfinu, s.s. eins og Kópaskerslínu. Í samvinnu við RARIK hefur verið gripið til ráðstafana til að hafa tiltækt varafl á svæðinu með rekstri díselstöðva en ekki er útlokað að grípa þurfi til einhverra skerðinga, t.d. ef Byggðalínan gæfi sig.

Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu.
Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu. mbl.is/Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert