Auglýsa ferð til að skoða gosið

Dyngjujökull.
Dyngjujökull. Rax / Ragnar Axelsson

Ferðaþjónustufyrirtækið Extreme Iceland mun ef til vill bjóða upp á ferð á morgun þar sem ferðamenn geta fylgst með hugsanlegu gosi í Dyngjujökli. Enn sjást ekki merki um gos á yfirborði jökulsins eða í ám á svæðinu. 

„Við erum enn ekki viss hvort það er gos undir jöklinum eða ekki, það eru að minnsta kosti ekki nein merki um það enn,“ segir á Facebook-síðu fyrirtækisins. Þar kemur fram að ef um gos er að ræða, ef sjáanleg ummerki um það verða ætli fyrirtækið að bjóða upp á ferð á morgun.

Lagt verður af stað klukkan 8 í fyrramálið og mun ferðin standa yfir í sólarhring. „Við munum keyra í um það bil sjö klukkustundir norður Sprengisand og upp Fjórðungsöldu (972 metra hátt) og þaðan munum við fylgjast með gosinu í sex til tíu klukkustundir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert