Loka vegum að Dettifossi

Dettifoss er fjölsóttur ferðamannastaður.
Dettifoss er fjölsóttur ferðamannastaður. mbl.is/Rax

Búið er að loka vegum að Dettifossi og lögreglumenn eru að rýma Jökulsárgljúfur báðum megin við ána. Að svo stöddu er ekki talin ástæða til að rýma íbúa- og frístundabyggð í Kelduhverfi, Öxarfirði og Núpasveit. Fólk á þessu svæði er hvatt til að fylgjast grannt með fréttum og vera í stöðugu farsímasambandi.

Brynjólfur Sigurðsson lögreglumaður var að loka vegum niður að Dettifossi þegar mbl.is ræddi við hann. Vegum bæði vestan og austan við Jökulsá hefur verið lokað.  Hann segir að ákveðið hafi verið að rýma Jökulsárgljúfur. Þar væri talsvert af ferðamönnum, en menn vissu ekki hversu margir. Um 100 manns hefði verið í Vesturdal og Ásbyrgi í morgun, en þeir gætu verið farnir af svæðinu núna.

Hafsteinn Hjálmarsson, bóndi á Gilsbakka í Öxarfirði og björgunarsveitarmaður, er á leið á björgunarsveitarbíl niður að Jökulsá. Hans hlutverk er að fara um svæðið og biðja fólk um að hafa sig á brott því hætta sé á flóði í Jökulsá á Fjöllum.

Hafsteinn sagði að gott veður væri á svæðinu og margt fólk á ferð, bæði erlendir og innlendir ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert